Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:39:24 (239)

1998-10-08 14:39:24# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað sambærilega og laun. Þær hafa setið eftir og bilið hefur breikkað á þessu kjörtímabili, hv. þm. Pétur Blöndal. Bilið hefur breikkað og þessi hópur hefur setið eftir. Það er alveg ljóst.

Herra forseti. Við höfum verið að ræða um að sömu reglur gildi um vaxtabætur og húsaleigubætur, þ.e. að þær verði skattfrjálsar. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur haldið þessa ræðu sína sem maður hefur heyrt nokkrum sinnum áður um alla vankantana á velferðarkerfinu og m.a. vankantana á húsaleigukerfinu og ég spyr hv. þm.: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki lagt fram frv. til breytinga á þessum lögum, breytinga á velferðarkerfinu til þess að sníða þessa vankanta af kerfinu sem hann þekkir svona vel og talar hér um svo fjálglega? Hvernig stendur á því að það kemur ekkert frá hv. þm. um breytingar til bóta úr því að hann telur að hann hafi þarna lausnir á öllum málum? Ég furða mig á því.

Aftur á móti get ég ekki tekið undir þetta tal hans því að þetta samræmist ekki minni hugsun um það hvernig komið er og hvernig hlutunum hefur verið skipt í þjóðfélaginu. Því miður hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á þessu kjörtímabili vanrækt stóran hóp í samfélaginu, þ.e. öryrkja og ellilífeyrisþega sem hafa lítinn rétt í lífeyrissjóðakerfinu og þetta fólk þarf á skattlausum húsaleigubótum að halda.