Fullgilding samþykktar um starfsöryggi

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:15:20 (263)

1998-10-12 15:15:20# 123. lþ. 7.1 fundur 41#B fullgilding samþykktar um starfsöryggi# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og kunnugt er erum við Íslendingar aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Á vegum þeirrar stofnunar hafa verið gerðar fjölmargar samþykktir um samskipti launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Við Íslendingar höfum fullgilt 18 af þessum samþykktum sem er ekki mikið ef við tökum mið af því sem hefur tíðkast á hinum Norðurlöndunum þar sem á bilinu 80 til og yfir 100 samþykktir hafa verið fullgiltar. Allar þjóna þær þeim tilgangi að greiða fyrir samskiptum atvinnurekenda og launafólks og að bæta réttarstöðu launafólks.

Fulltrúi samtaka launafólks í nefndinni hefur margsinnis leitað eftir því að ákveðnar samþykktir verði fullgiltar í þríhliða nefnd samtaka launafólks, atvinnurekenda og félmrn. Þeirra á meðal er samþykkt um starfsöryggi nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda. Fulltrúi atvinnurekenda hefur lýst sig andsnúinn því og ríkisstjórnin hefur ekki tekið af skarið.

Nú hefur hæstv. félmrh. lýst yfir vilja til að bæta þarna úr, m.a. hér úr ræðustóli einhverju sinni. Því vil ég spyrja hann:

Er að vænta fullgildingar á næstunni á samþykkt 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda? Ef svo er, hvenær? Ef ekki, hyggst félmrh. beita sér fyrir því á þessu kjörtímabili að samþykktin verði fullgilt?