Fullgilding samþykktar um starfsöryggi

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:17:03 (264)

1998-10-12 15:17:03# 123. lþ. 7.1 fundur 41#B fullgilding samþykktar um starfsöryggi# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það vill svo til að í síðustu viku átti ég fund með samstarfsnefnd aðila vinnumarkaðarins og félmrn. um fullgildingu á ýmsum ILO-samþykktum. Samkomulag hefur náðst um að fullgilda samþykkt 138 og ég mun beita mér fyrir því að gengið verði frá því máli fljótlega.

Varðandi samþykkt 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, þá hef ég mjög mikinn áhuga á því að fullgilda þá samþykkt og fór fram á að það yrði athugað eða sett í gang vinna við það. Það kostar lagabreytingar hér og ég vil sjá fyrir endann á þeim áður en ég geri meira í því máli.

Varðandi samþykkt 158 þá kæmi hún kannski á eftir hinum tveimur. Ég reikna með því að vinna að því að hún verði samþykkt. Ég þori ekki að lofa því að það klárist á þessu kjörtímabili. Út af fyrir sig væri ég sæmilega sáttur við að klára hinar tvær.