Skemmdir á hafsbotni af völdum veiðarfæra

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:21:26 (268)

1998-10-12 15:21:26# 123. lþ. 7.1 fundur 42#B skemmdir á hafsbotni af völdum veiðarfæra# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að um þó nokkurn tíma hafa verið talsverðar umræður um áhrif veiðarfæra og spurningar vaknað um það hvort einstök veiðarfæri væru meira skaðleg en önnur fyrir umhverfið. Því miður hafa ekki farið fram miklar rannsóknir á þessu sviði hér en umræðan hefur auðvitað átt sér stað eins og víða annars staðar. Hafrannsóknastofnun hefur í vaxandi mæli lagt áherslu á að slíkar rannsóknir fari fram og hefur fengið sérstaka fyrirgreiðslu í því efni. Þegar sjóðir atvinnuveganna voru sameinaðir var ákveðin upphæð tekin frá til þess einmitt að hefja rannsóknir á veiðarfærum og áhrifum þeirra. Ég tel að þetta séu mjög mikilvægar rannsóknir og að þær þurfi að efla mjög á komandi árum.