Útboð á vegum varnarliðsins

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:25:02 (271)

1998-10-12 15:25:02# 123. lþ. 7.1 fundur 43#B útboð á vegum varnarliðsins# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Eins og alkunna er samdi fyrrv. utanrrh. árið 1994 um það að rekstrarþættir hjá varnarliðinu yrðu boðnir út. Á ýmsu hefur gengið í þessum útboðum og er nú ekki tími til að rekja það hér. Ástæða þess að ég ber upp þessa fyrirspurn er sú að nýlega var boðin út starfsemi hjá deild innan varnarliðsins sem er kölluð ,,billeting`` og samkvæmt niðurstöðum útboðsins voru laun starfsmanna lækkuð um 35--40%.

Ég spyr því hæstv. utanrrh. Er það gert með vitund ráðuneytisins að útboð hjá varnarliðinu geti gengið út á það að lækka umsamin laun starfsmanna? Einnig vil ég spyrja, herra forseti, hvort ráðuneytið skoði sérstaklega hvernig verktakar sem valdir eru til að taka þátt í slíkum útboðum hafi staðið sig gagnvart starfsmönnum sínum þegar um umsamin laun er að ræða.

Að síðustu vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé tilbúinn til þess að skoða þetta sérstaklega og málin almennt hvað þetta varðar.