Meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:34:48 (280)

1998-10-12 15:34:48# 123. lþ. 7.1 fundur 45#B meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi bar ég fram fyrirspurn og mælti fyrir þáltill. um meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur. Viðbrögð ráðherra við þessum málflutningi voru mjög eindregið þau að vel væri séð fyrir þessum málum, verið væri að opna ný heimili og fé hefði verið stóraukið til forvarnastarfs.

Í gærkvöldi bárust þær fréttir á öldum ljósvakans að samkvæmt frásögn forstöðumanns Barnaverndarstofu sé neyðarástand ríkjandi í þessum málum og tugir ungmenna séu á biðlista eftir meðferðarplássi mánuðum saman, m.a. margir sem séu mjög illa haldnir. Þar var tekið dæmi af 14 ára unglingi sem væri í stöðugri neyslu amfetamíns en foreldrar hans kæmu honum ekki í meðferð.

Mér þykja þessi tíðindi ógnvænleg í ljósi þess sem hér kom fram í umræðum í fyrra og þess vegna langar mig að bera fram tvær fyrirspurnir:

Hefur ráðuneytið fylgst með þeirri miklu fjölgun neytenda sem orðið hefur í yngstu aldursflokkunum samkvæmt því sem kom fram hjá Braga Guðbrandssyni í gær? Er von á sértækum aðgerðum vegna þess neyðarástands sem nú hefur myndast?