Meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:39:05 (282)

1998-10-12 15:39:05# 123. lþ. 7.1 fundur 45#B meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. félmrh. er meðvitaður um vandamálið og hyggst taka það föstum tökum. Ég tel að hægt hefði verið að sjá þessa aukningu fyrir á síðasta ári, bæði vegna þess sem hæstv. félmrh. minntist á, að við hækkun lögræðisaldurs fjölgar þeim sem þurfa á úrræðum frá félmrh. að halda, enda var það einkum vegna þessa að breytingin var gerð, og að það hafi blasað við í fyrra að neyslan væri mjög að aukast í yngstu aldursflokkunum. Það kom til umræðu á Alþingi og var vitnað í sérfróða um þessi mál. Þá þegar blasti við að þetta var að gerast. Þetta er hörmulegt. Ég tek undir það með ráðherra og ég vona að hann bregðist vel við þessu, enda heyrðist mér það á hans málflutningi.