Áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:44:56 (286)

1998-10-12 15:44:56# 123. lþ. 7.1 fundur 46#B áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er gott ef baktrygging er í þessu máli en ég hef orð forstjóra Hafrannsóknastofnunar fyrir því að hann sjái ekki möguleika á því, miðað við þær tillögur sem fyrir liggja um fjárframlög til stofnunarinnar, að lagt verði í þetta verkefni sem þingið tók afstöðu til í fyrra. Ég held að þingið megi til með að endurskoða þetta með stuðningi ráðuneytisins þannig að þessi rannsókn geti hafist samkvæmt þeirri áætlun sem ég fékk frá Hafrannsóknastofnun við undirbúning málsins.

Ég vil líka geta þess að skyld tillaga var flutt í þinginu af hv. þm. Gísla S. Einarssyni. Undir hana tók sjútvn. og ég er sannfærður um að á Alþingi er ríkur vilji til að taka loks myndarlega á þessum málum. Það er líka rétt sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh. að Hafrannsóknastofnun sýndi á fyrri stigum viðleitni til þess að hefja athugun þessara mála.