Áform Norsk Hydro um byggingu álvers

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:48:38 (288)

1998-10-12 15:48:38# 123. lþ. 7.1 fundur 47#B áform Norsk Hydro um byggingu álvers# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að mínu mati hefði átt að beina þessari fyrirspurn til hæstv. iðn.- og viðskrh. en ég skal leitast við að svara henni eftir því sem ég get. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að við það hefur verið miðað af hálfu ríkisstjórnar að stóriðja rísi á Reyðarfirði í tengslum við nýtingu orkulinda á Austurlandi og þar er Fljótsdalsvirkjun fyrst og fremst nefnd. Þetta hefur legið fyrir í langan tíma og viðmælendum Íslendinga, Norsk Hydro, gerð grein fyrir því þannig að þeir ganga út frá því að ef af þessu verður muni álverið rísa á Reyðarfirði. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða um niðurstöður þess máls á þessu stigi. Menn hafa gert sér vonir um að línur muni skýrast á þessu hausti, eða a.m.k. á fyrri hluta næsta árs en það er alveg rétt að það eru sveiflur á heimsmarkaði, ekki aðeins að því er varðar þessa framleiðslu heldur ýmsa aðra framleiðslu. Mér er ekki kunnugt um að það hafi neitt dregið úr áhuga þessa fyrirtækis til að reisa álver hér á landi þótt að nú sé niðursveifla, menn gera ráð fyrir því að verðið muni sveiflast upp á nýjan leik og það er langt í að þessi fyrirhugaða verksmiðja taki til starfa.

Ég get tekið undir það með hv. þm. að það verður að huga að ýmsu öðru og iðnrn. er að því. Hins vegar eru menn í þessum viðræðum af mikilli alvöru og með það að leiðarljósi að fá hér niðurstöðu og meðan bjartsýni ríkir um það verða menn að sjálfsögðu að einbeita sér að því.