Áform Norsk Hydro um byggingu álvers

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:52:24 (291)

1998-10-12 15:52:24# 123. lþ. 7.1 fundur 47#B áform Norsk Hydro um byggingu álvers# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er alltaf verra að búa við óvissu um framtíðina en það er erfitt að komast hjá því og ef þessi rök ættu að gilda mundu menn aldrei reyna neitt fyrir sér. Það verður ekkert vitað um þetta mál fyrr en niðurstaða er fengin en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að á það reyni. Ég tel að hér sé um mjög traust fyrirtæki að ræða, fjárhagslega mjög sterkt og það geta allir séð sem hafa kynnt sér reikninga þess. Þótt sveiflur séu á hlutabréfum í Norsk Hydro nú ætti það ekkert að koma á óvart. Ég held það sé alveg ljóst að hlutabréf í Norsk Hydro hafa að undanförnu verið að hækka mjög mikið og þó að þau lækki eitthvað nú um þessar mundir sé ég ekki að það breyti neinu um fyrirætlanir fyrirtækisins um að auka sína álframleiðslu í framtíðinni því menn vita að mikil eftirspurn verður á næstu áratugum eftir áli. Það er mikil þörf fyrir það þegar verið er að reyna að draga úr mengun í heiminum, ekki síst í bílaiðnaði.