Framlagning stjórnarfrumvarpa

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:03:30 (293)

1998-10-12 16:03:30# 123. lþ. 7.95 fundur 52#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég segi alveg eins og er að nokkuð sérkennileg staða er orðin á þessu þingi. Tvær vikur eru bráðum liðnar af því án þess að neitt sé í raun komið af málum frá hæstv. ríkisstjórn til að ræða. Mér finnst það benda til þess, þó að reynt hafi verið að skipuleggja störf þingsins betur en áður og ástæða er til að þakka hæstv. forseta fyrir það, að veruleikinn sé engu að síður sá að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi ekki tekið eftir þeim skipulagsumbótum sem hafa átt sér stað á Alþingi Íslendinga. Þeir eru bersýnilega mjög seinir að koma frá sér málum og ríkisstjórnin sein að koma frá sér málum til þingflokka stjórnarflokkanna. Það er því nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að ræða sérstaklega við formenn þingflokka stjórnarflokkanna um þetta alvarlega vandamál vegna þess að þetta hlýtur auðvitað að leiða hugann að því hvort starfsáætlunin er þegar í hættu. Er það kannski svo að þessi knappa starfsáætlun sem við höfum þegar sett saman sé þannig að það verði að endurskoða hana? Ég vil spyrja hæstv. forseta: Er hann þrátt fyrir þetta sleifarlag stjórnarflokkanna staðráðinn í að halda sig fast við starfsáætlun Alþingis þannig að þingi ljúki jafnsnemma og þar er gert ráð fyrir? Það er auðvitað nauðsynlegt að fá að vita, eða hvort það er kannski á bak við hin seinu viðbrögð stjórnarflokkanna að láta eigi þingið standa lengur en gert var ráð fyrir í þeirri starfsáætlun sem var gefin út fyrir einni viku.