Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:15:59 (306)

1998-10-12 17:15:59# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:15]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það á ræðu hv. þm. að um það er ekki ágreiningur að það er hlutverk framkvæmdaaðilans að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Ég er með það skjalfest frá Landsvirkjun hver staða rannsókna og undirbúnings mats á umhverfisáhrifum fyrir Fljótsdalsvirkjun er. Ég fór yfir það í minni ræðu áðan. Þetta mat stendur yfir. Undirbúningurinn stendur yfir. Það er ekki komið að því að taka ákvörðun af hálfu stjórnenda fyrirtækisins um það hvort málið skuli sent í kærufarveg eða ekki. Hv. þm. getur því ekki haldið því fram á meðan málið er í lögformlega réttum farvegi að menn ætli ekki að standa löglega að þessu. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að svo sé og það er ótvírætt á valdi framkvæmdaaðilans hvernig staðið er að matinu, hvort sem það er Landsvirkjun eða einhver annar sem hefur rétt til slíkra hluta.