Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:17:07 (307)

1998-10-12 17:17:07# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:17]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvernig getur hæstv. iðnrh. hagað máli sínu á þennan hátt, að mál sé í lögformlega réttum farvegi, að það liggi fyrir að það verði farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum? Það liggur ekki fyrir. Hvort Landsvirkjun er að látið framkvæma athuganir á sínum vegum er mál út af fyrir sig og þær geta auðvitað fallið inn í þá skýrslu sem framkvæmdaaðila lögum samkvæmt ber að leggja fram sem frumgagn í máli. En það liggur ekki fyrir að það verði gert. Það er það sem beðið er um að verði ákvarðað og að ákvörðun um það liggi fyrir þannig að menn geti verið rólegir vitandi það að mat á þessari framkvæmd eigi að fara fram lögum samkvæmt. Það er það sem verið er að reyna að fela.

Hæstv. ráðherra veifar hér lýsingu á því hvaða mat er unnið á vegum Landsvirkjunar. Það er ekkert mat á umhverfisáhrifum í þeim skilningi sem menn ræða hér og eins og lög kveða á um. Það er svo einfalt.