Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:33:53 (314)

1998-10-12 17:33:53# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:33]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir þingmenn. Ég styð þessa þáltill. sem nú er komin fram og ég vil flytja örfá rök fyrir stuðningi mínum. Mér finnst alveg furðulegt eins og síðasti ræðumaður kom raunar inn á að menn skuli fara 20 ár aftur í tímann til þess að ná í forsendur fyrir ákvörðunartöku í umhverfismálum eða hvernig staðið er að málum. Ég held að það hljóti allir að gera sér grein fyrir því að núna eru vatnaskil varðandi skilning almennings á gildi umhverfismála. Það er nefnilega þannig fyrir okkur sem höfum unnið í umhverfisgeiranum að þrátt fyrir lögin um mat á umhverfisáhrifum var samfélagið alls ekki tilbúið til þess að taka þær reglur. Það var andstaða við þau og eiginlega var þetta gert með semingi úti í samfélaginu. Framkvæmdaaðilar alls staðar úti í samfélaginu litu á þetta sem skyldu til þess að friðþægja græningjana, náttúruverndarsinnana, og þannig var þetta um hríð og ég held að það séu allir sammála um þennan skilning og þetta viðhorf gagnvart mati á umhverfisáhrifum eins og það var framkvæmt.

Þess vegna vil ég taka undir þau orð hv. síðasta þingmanns að það á að taka stöðuna eins og hún er núna. Það eru breyttar áherslur hjá almenningi úti í samfélaginu til hagsbóta fyrir umhverfið og náttúruna og við eigum að bregðast við því. Við eigum ekki að þumbast og halda áfram og beita lögum og fyrri samþykktum ef við sönsum það, ef við finnum fyrir því að mönnum finnist ástæða núna til þess að staldra við og taka nýja stefnu og um það er stór hluti þjóðarinnar að biðja. Hvernig verður svo farið að því? Ein leiðin er að þingið taki frumkvæðið.

Það er ekki við hæfi í dag, svo ég nefni annað dæmi, að stór framkvæmdaaðili eins og Landsvirkjun hafi frumkvæði og forsvar fyrir því að gera umhverfismat. Við eigum að endurskoða það og ég er svo hissa á því að menn sem ötullega vinna að einkavæðingu á öllum sviðum þjóðlífsins skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrir löngu að það er nauðsynlegt að breyta leikreglum frá því sem var þegar þetta voru ríkisrekin fyrirtæki þar sem þingmenn voru ráðandi jafnvel inni í stjórnunum og miklu auðveldara var að grípa í taumana og hlutirnir voru samtengdari. Það er allt önnur staða í dag og það á að bregðast við því.

Varðandi umhverfismat er líka nauðsynlegt að Alþingi fari að beita sér meira að því að skoða umhverfisáhrifin í víðu samhengi. Ætli það sé ekki það sem þjóðin er að biðja um úti í samfélaginu? Hún er kannski að biðja um að aðeins verði staldrað við í því offorsi sem farið hefur verið fram með varðandi virkjanir og uppbyggingu á stóriðju. Það verði kannski farið aðeins hægar í sakirnar og menn fái ráðrúm til þess að skoða aðra hluti. Og það get ég fullyrt og sagt Austfirðingum að það er mín bjargfasta trú að líti menn til stóriðju sem bjargvættar fyrir Austurlandskjördæmi í atvinnumálum, þá er það rangt, rangt, rangt. Ætli það sé ekki þannig að stóriðjuframsóknin á síðustu þremur til fjórum árum hafi orðið til þess að mönnum fækkaði í fjórðungnum frekar en margt annað. Innskot stóriðjunnar í Austurlandskjördæmi eða Norðurlandskjördæmi eða hvar menn vilja setja hana niður mun engin áhrif hafa á byggðaþróun. Hún mun þvert á móti styrkja höfuðborgarsvæðið. Umsetningin vegna stóriðjunnar, uppbyggingarinnar, allrar grunnþjónustu er hér og því er spýtt inn hér. Þetta eru þeir hlutir sem við verðum líka að horfa á í umhverfismatinu í víðu samhengi. Það er hlutverk þingsins að mínu mati.

Að tala um nauðsyn á umhverfismati út frá ferðaþjónustunni er svo augljóst að það þarf ekki að eyða tíma í það. Við vorum að fá tölur um gildi ferðaþjónustunnar og ætli stóriðjan blikni ekki bara við hliðina á þeim tölum sem þar komu fram, bæði í tekjum og varðandi störf. Þarna eru gríðarlegir sóknarmöguleikar ef menn halda rétt á málum. Hér var vitnað í umhverfisstjóra Landsvirkjunar og ég vil taka svo heils hugar undir með henni hvernig hún matreiddi málin. Við höfum nefnilega vaðið áfram og undirbyggt undir það sem við viljum. Umhverfismatið er gert á vitlausum forsendum. Og það er kannski eins og með svo margt annað hjá okkur að okkur ætlar að takast að vera þarna svo sem eins og 20 árum á eftir öðrum þjóðum.

Herra forseti. Það er mitt mat að til þess að komast út úr þessum farvegi, finna nýjan flöt á þessum málum og skoða þetta í nýju ljósi, þá sé þessi till. til þál. fyrsta skrefið og við skulum samþykkja hana.