Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:48:10 (316)

1998-10-12 17:48:10# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:48]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í málflutningi hæstv. umhvrh. var nú annar tónn en hjá hæstv. iðnrh. og vil ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir hve hann leggur spilin í rauninni opið á borðið um þetta eins og málið virðist liggja eftir frásögn hans. Það sem bar á milli mín og hæstv. iðnrh., og ég vænti að menn hafi náð að skilja, er það að málið er ekki í lögformlegum farvegi vegna þess að Landsvirkjun ber ekki lögum samkvæmt að fylgja lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta dró hæstv. umhvrh. skýrt fram þegar hann sagði að sú vinna sem fram færi á vegum Landsvirkjunar nú gæti nýst færi þessi framkvæmd að lögunum. Því hefur enginn neitað en það er einmitt það sem hæstv. umhvrh. segist vera að vinna að, þ.e. að reyna að tryggja að fá fram þann vilja í ríkisstjórninni að úr þessu verði skorið þannig að ótvírætt sé hvaða farvegur er markaður um málið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðleitni hans. Ég vil ekki kveða upp dóma yfir hæstv. umhvrh. að hafa ekki komist lengra. Það er auðvitað ljóst að menn ná ekki lengra en nafn stendur til á pólitískum vettvangi en ég trúi ekki öðru en ríkisstjórnin nái áttum í málinu og það ætti að auðvelda hæstv. ríkisstjórn að ná áttum ef reyndi á þingviljann og þingviljinn lægi fyrir eins og lagt er til í þessari tillögu, að þeim vilja verði lýst yfir af hálfu Alþingis að þessi tiltekna framkvæmd fari að lögum um mat á umhverfisáhrifum. Svo væri gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvað líður endurskoðun þeirra laga.