Minningarorð

Þriðjudaginn 13. október 1998, kl. 13:29:26 (319)

1998-10-13 13:29:26# 123. lþ. 8.1 fundur 54#B minningarorð#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 123. lþ.

[13:29]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Íslenskri þjóð hefur borist harmafregn. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, eiginkona forseta Íslands, er látin. Hún andaðist á sjúkrahúsi í Seattle í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir var fædd í Reykjavík 14. ágúst 1934. Foreldrar hennar voru hjónin Þorbergur Friðriksson skipstjóri og Guðrún Beck húsmóðir. Sjö ára að aldri missti hún föður sinn í sjóslysi. Þannig varð hún sem margir aðrir fyrir sárri reynslu í æsku.

Guðrún Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og stundaði síðar háskólanám í Gautaborg. Hún gegndi bæjarfulltrúastarfi í heimabyggð sinni, Seltjarnarnesi, og ýmsum öðrum trúnaðarstörfum á vegum félagasamtaka.

Fyrir rúmum tveimur árum tók Guðrún Katrín við ábyrgðarmiklu og vandasömu starfi húsmóður á forsetasetrinu á Bessastöðum og bjó þá að þroska og lífsreynslu til að rækja það starf. Hógvær framkoma, ljúfmennska og háttprýði voru aðlaðandi þættir í fari hennar. Því hlutverki, sem henni var fengið við hlið forseta Íslands, gegndi hún með sannri prýði og vakti aðdáun hárra sem lágra. Að því kom of fljótt að hún varð að stríða við alvarleg veikindi. Í því erfiða stríði stóð hún sem hetja meðan stætt var.

Í djúpri samúð með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fjölskyldu þeirra og öðrum ástvinum er Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur minnst með söknuði. Andlát hennar er íslenskri þjóð harmsefni.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]