Tilkynning um úrsögn úr þingflokki

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:36:02 (323)

1998-10-14 13:36:02# 123. lþ. 10.91 fundur 57#B tilkynning um úrsögn úr þingflokki# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í lífi hvers stjórnmálamanns og stjórnmálaflokks skiptast á skin og skúrir. Það hef ég fengið að reyna töluvert í sumar sem formaður Alþb. Birtan í störfum okkar er samþykkt yfirgnæfandi meiri hluta Alþb. um að stefnt skuli að sameiginlegu framboði félagshyggjufólks um allt land. Skuggarnir eru hins vegar þeir að nokkrir mætir hv. þingmenn Alþb. og óháðra hafa kosið að fara aðrar leiðir og fylgja ekki þessari niðurstöðu.

Það eru gömul sannindi og ný að hver manneskja verður að velja sér sinn farveg í pólitík. Kannski er skylda stjórnmálamannsins og þingmanna enn meiri í þessum efnum því að þar ber okkur samkvæmt stjórnarskrá að fara eftir sannfæringu okkar.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim þingmönnum sem hafa starfað með Alþb. og óháðum á þessu kjörtímabili og reyndar lengi áður, og hafa nú kosið sér að beita starfskröftum sínum annars staðar, og jafnframt þeim þingmanni sem hér er að kveðja þingflokk Alþb. fyrir vel unnin störf og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.