Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:48:10 (328)

1998-10-14 13:48:10# 123. lþ. 10.1 fundur 28. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni yfir þeim svörum sem komu fram af hálfu hæstv. sjútvrh. Hann segir okkur að hann telji að ekki sé grundvöllur til að leggja það til að hrefnuveiðar verði hafnar og eftir allt sem undan er gengið þá heyrist mér helst að hann telji að það þurfi frekari könnunar við, að rannsaka þurfi meira og betur. Það þurfi að rannsaka áhrif þess að ekki sé veitt og hann vísar í að Hafrannsóknastofnun hafi óskað eftir slíku.

Herra forseti. Mér finnst þetta vera einhver átakanlegasti kaflinn í því leikriti sem stjórnvöld hafa haldið úti og leikið fyrir áhugamenn um hvalveiðar á Íslandi. Mönnum hefur verið sagt og gefið til kynna að það væri vilji stjórnvalda að hefja hvalveiðar. Það hefur hins vegar gerst í hvert einasta skipti þegar tilefni hefur verið til að taka ákvarðanir, að menn hafa farið í aðra sálma. Nei, það þarf að rannsaka meira. Menn hafa sem sé heykst á því að taka hina pólitísku ákvörðun aftur og aftur.

Það væri meiri sómi að því að stjórnvöld kæmu hreint fram í þessu máli og segðu þeim sem eru áhugamenn um hvalveiðar hreint út að ekki standi til að hefja hvalveiðar að nýju, frekar en að halda þessum tvískinnungi áfram og leyfi fólki að halda að stefnan sé allt önnur en hún er í reynd.