Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:50:01 (329)

1998-10-14 13:50:01# 123. lþ. 10.1 fundur 28. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:50]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að vandasamt mat væri að ákveða tímasetningu á því hvenær unnt væri að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni. En það er nauðsynlegt að leiðrétta það sem hv. þm. segir um nauðsyn rannsókna. Það hefur legið lengi fyrir og er enginn ágreiningur um það í samfélagi vísindamanna að hrefnustofninn hér þolir nýtingu. Það hefur meira að segja verið viðurkennt af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Um það er enginn ágreiningur og ekki þarf frekari rannsóknir á stofnstærð til að taka slíkar ákvarðanir.

Hitt er alveg ljóst og það er að loka augunum fyrir staðreyndum ef menn gera sér ekki grein fyrir því að erfitt er að vinna þessu máli framgang á erlendum vettvangi. Þau rök sem helst hafa bitið af okkar hálfu eru einmitt þau að mikilvægt sé fyrir okkur, ekki aðeins að nýta allar tegundir sem finnast í sjónum heldur að tryggja eðlilegt jafnvægi þar á milli. Við höfum ákveðnar vísbendingar um það og óskir frá færustu vísindamönnum okkar að ástæða sé til að rannsaka samhengið í lífríkinu betur sem hluta af því fjölstofna verkefni sem Hafrannsóknastofnun fór fram með á sínum tíma. Ég er þeirrar skoðunar að ekki verði hjá því komist að líta á þessar óskir. Menn verða að gera greinarmun á athugunum á stofnstærð hvala annars vegar, hrefnu í þessu tilviki, og hins vegar þeim rannsóknum sem miða að innra samhengi þessara stofna og fiskstofna. Það er til að blekkja og villa almenning ef menn eru að halda öðru fram í umræðum um þessi efni eins og mátti ráða af máli hv. fyrirspyrjanda.