Gjafsóknir

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:06:28 (340)

1998-10-14 14:06:28# 123. lþ. 10.4 fundur 54. mál: #A gjafsóknir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Á bls. 288 í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 kemur fram að lagt er til að framlög til gjafsókna verði nánast tvöfölduð. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kostnaður við gjafsóknir hefur aukist jafnt og þétt hin síðustu ár og verður framlag 31,3 millj. kr. á næsta ári samanborið við 16,7 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs.``

Þetta vekur upp spurningar um það sem að baki býr. Er þetta spegilmynd af efnahagslegri stöðu margra þeirra sem þurfa að leggja út í málaferli? Segir þetta okkur að dómskerfið og þjónusta þeirra sem þar koma að málum sé orðin allt of dýr eða hvað? Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga:

,,1. Í hve mörgum málum var veitt gjafsókn árin 1996 og 1997?

2. Hvers konar mál fengu gjafsókn, flokkuð eftir eðli mála?

3. Hvaða ástæður voru fyrir því að leyfi var veitt til gjafsóknar?``