Íbúðalánasjóður

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:26:30 (352)

1998-10-14 14:26:30# 123. lþ. 10.7 fundur 29. mál: #A Íbúðalánasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í september beindi bæjarstjórn Húsavíkur þeim tilmælum til félmrh. að hann beitti sér fyrir því að aðsetur hins nýja Íbúðalánasjóðs yrði á landsbyggðinni. Jafnframt lýsti bæjarstjórnin sig reiðubúna til samstarfs við ráðherrann vegna nauðsynlegs undirbúnings þess að sjóðurinn fengi aðsetur á Húsavík. Þannig kom bæjarstjórnin þeim ábendingum til ráðherra og ríkisstjórnarinnar að taka alvarlega það sem þeir segja sjálfir, að betra sé að setja nýjar stofnanir niður úti á landi en flytja þangað gamlar.

Það er ljóst að allar aðstæður til atvinnusköpunar eru að breytast. Ný tækni gerir kleift að verkefni séu unnin um allt land, svo fremi að tölva og símalína séu tiltæk. Nýjar aðstæður samfara nýrri tækni skapa nýja möguleika en gera jafnframt þær kröfur til stjórnvalda, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, að ýmislegt sé hugsað upp að nýju. Það á ekki síst við nú þegar flutningur af landsbyggðinni er meiri en nokkru sinni fyrr og menn gera sér æ betur grein fyrir þeim gífurlega kostnaði sem það hefur í för með sér, bæði fyrir fjölskyldur og hið opinbera, að nýta ekki fjárfestingar sem ráðist hefur verið í um land allt en þurfa síðan að endurfjárfesta hér syðra.

Þær kannanir sem fyrir liggja um orsakir búferlaflutninga benda til þess að orsakanna sé ekki síst að leita í einhæfu atvinnulífi. Það ætti því að vera samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að nýta alla nýja möguleika og aðstæður til að gera atvinnu fjölbreyttari um land allt. Bæjarstjórnin á Húsavík hefur lýst vilja sínum til að bregðast við og í ljósi þess hef ég á þskj. 29 lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félmrh.:

,,Hver er afstaða ráðherra til ályktunar bæjarstjórnar Húsavíkur um aðsetur Íbúðalánasjóðs?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður við bæjarstjórn Húsavíkur um aðsetur sjóðsins?``