Íbúðalánasjóður

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:31:56 (354)

1998-10-14 14:31:56# 123. lþ. 10.7 fundur 29. mál: #A Íbúðalánasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að harma þessi svör hæstv. ráðherra. Ég hefði talið að honum væri bæði rétt og skylt að fara í viðræður við bæjarstjórn Húsavíkur þó ekki væri nema til að þreifa á því hvort þær hugmyndir sem hann hér sjálfur reifaði gætu rímað við óskir þeirra að einhverju leyti, þ.e. hugmyndir um það að starfsmenn í einhverjum verkefnum hins nýja Íbúðalánasjóðs gætu haft aðsetur á Húsavík.

Það er nefnilega þannig að hin nýja samskiptatækni gerir ekki endilega kröfu um að fólk sé staðsett á þeim stað sem stofnun hefur heimilisfesti. Það getur allt eins verið þannig að stofnun sem er með heimilisfesti úti á landi hafi eitthvað af sínum starfsmönnum á Ísafirði og eitthvað af þeim í Reykjavík og eitthvað af þeim austur á Eskifirði þess vegna. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég tala um nýja hugsun, þ.e. að menn hugsi þessa hluti upp að nýju, horfi ekki alltaf á verkefnin þannig að þau þurfi öll að rúmast inni í sama kassanum, inni í sama húsinu, heldur horfi þannig á hlutina að um sé að ræða verkefni sem þarf að vinna og að það skiptir ekki máli hvar mörg þeirra verkefna eru unnin. Þau má allt eins vinna norður á Húsavík eða hvar annars staðar sem er á landinu þar sem er sæmileg greitt símasamband og menn hafa þekkingu og vilja til að taka á málum.

Þess vegna skora ég á hæstv. félmrh. að fara í viðræður við bæjarstjórnina á Húsavík og kanna hver vilji bæjaryfirvalda sé til þess að mæta þeim hugmyndum sem ráðherrann reifaði hér vegna þess að það svar að hugmyndin sé of seint fram komin er ekki boðlegt í ljósi þess að ný samskiptatækni gerir það að verkum að starfsfólk Húsnæðisstofnunar, þó það vildi þiggja vinnuna hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði, getur haldið áfram að eiga heim í Reykjavík þó að það sé að störfum hjá stofnun sem er með aðsetur annars staðar.