Ár aldraðra

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:47:12 (360)

1998-10-14 14:47:12# 123. lþ. 10.9 fundur 32. mál: #A ár aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spyr hvað ríkisstjórnin hyggist gera í tilefni af ári aldraðra. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. fyrir þessa fsp. Ríkisstjórnin ætlar að standa vel að ári aldraðra 1999 í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnin hefur samþykkt sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis, eins og fram kemur í fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu.

Síðastliðið vor skipaði ég framkvæmdastjórn til að vinna að verkefnum og einnig kom ég á fót samráðshópi fulltrúa frá mörgum félaga- og hagsmunasamtökum sem á ýmsan hátt tengjast málefnum aldraðra. Yfirskrift árs aldraðra er: ,,Þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri`` og rík áhersla er lögð á að hverfa frá því að skipa öldruðum á sérstakan bekk í þjóðfélaginu.

Framkvæmdastjórnin hefur unnið að undirbúningi og skipulagi verkefna og ég bind vonir við að það víðtæka samstarf sem nú hefur náðst geti leitt til varanlegra breytinga á stöðu aldraðra í þjóðfélagi okkar. Þar vil ég sérstaklega nefna sveigjanleg starfslok, heilbrigðismál, félagsmál og menntamál aldraðra en 1. október sl. var helgaður málefnum aldraðra um allan heim og þann dag, 1. október, var mikil ráðstefna haldin í Kópavogi sem verkalýðshreyfingin, Landssamband eldri borgara og heilbrrn. stóðu að og var gaman að sjá að þar mættu hundruð aldraðra og margir áhugasamir aðilar um málefni og hagsmuni aldraðra.

Einstök verkefni eru þegar hafin og ég vil sérstaklega benda á að hér er hópur aldraðra sem sækir nú námskeið í tölvunotkun sem framkvæmdanefndin stendur fyrir. Þannig mun ráðuneytið standa myndarlega að ári aldraðra í góðu samstarfi við þá sjálfa, hagsmunaaðila og aðra sem áhuga hafa.

Önnur spurning hv. þm. er hvort haft hafi verið samráð við Samtök aldraðra í tilefni af ári aldraðra. Svarið er að náið samstarf hefur verið haft við Samtök aldraðra í tilefni af árinu og er formaður Landssambands eldri borgara í framkvæmdastjórn verkefnisins og þar á einnig sæti fulltrúi lífeyrissjóðanna.

Hv. þm. spyr í þriðja lagi hvort haft hafi verið samráð við samtök launafólks og lífeyrissjóðanna um ár aldraðra. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að ná sem víðtækustu samstarfi við alla þá sem tengjast með einhverjum hætti málefnum aldraðra og þar á meðal við fulltrúa samtaka launafólks og lífeyrissjóðanna, auk fjölmargra annarra sem með einhverjum hætti láta sig málefni aldraðra skipta.

Mig langar til að telja upp að eftirtaldir aðilar hafa komið að undirbúningi verkefnisins:

Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Biskupsstofa, Bændasamtök Íslands, Félag eldri borgara í Reykjavík, Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu, Íþróttasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Landssamband eldri borgara, Landssamband lífeyrissjóða, Samband almennra lífeyrissjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélag Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, Öldrunarfræðifélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Tryggingastofnun ríkisins.

Á undanförnum mánuðum hefur mikil undirbúningsvinna átt sér stað þar sem fjölmargir aðilar hafa tekið þátt í vinnu undirbúningshópa um stefnumörkun og framhald verkefnisins. Í þeirri vinnu hefur sérstaklega verið lögð áhersla á aðalmarkmiðið í samþykkt Sameinuðu þjóðanna, ,,Þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri`` og að auka lífsgleði ævikvöldsins. Þessi atriði ásamt ítarlegri upplýsingum koma fram á heimasíðu ráðuneytisins.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hvort um þverpólitískt samstarf verði að ræða meðal fulltrúa allra flokka. Sú vinna sem ég hef lýst er ekki á pólitískum grundvelli. Hér verður ekki um þverpólitískt samstarf að ræða, heldur faglega vinnu um málefni aldraðra.

Í fimmta lagi spyr hv. þm. hvort ríkisstjórnin muni kynna Alþingi áætlanir sínar í tilefni af ári aldraðra. Eins og áður er sagt er unnið skipulega að gerð framkvæmdaáætlunar og verður framkvæmdaáætlunin tilbúin fyrir lok þessa árs og því væntanlega kynnt skömmu fyrir áramót.