Ár aldraðra

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:52:45 (361)

1998-10-14 14:52:45# 123. lþ. 10.9 fundur 32. mál: #A ár aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég vil láta það koma fram að ég tel að í tilefni af ári aldraðra sé eðlilegt að Alþingi og ríkisstjórn setji sér markmið sameiginlega. Ég tel í raun að ekki sé nóg í þessum efnum, þó það sé mikilvægt, að ríkisstjórnin hafi með þetta að gera, heldur tel ég að flokkarnir og Alþingi eigi að koma að málinu. Ég tel t.d. af því ég sé hér mann fram undan mér, að heilbrn. Alþingis eigi að ræða um mál af þessu tagi og Alþingi eigi að sameinast um þau markmið sem menn setja sér í tilefni af ári aldraðra. Það eru aðallega fjögur atriði sem ég vil sjá að eigi sér stað.

Í fyrsta lagi að á árinu taki gildi ný lög um málefni aldraðra og það hefur verið undirbúið á ýmsan hátt á undanförnum árum, eins og hæstv. ráðherra rakti, þannig að það á að vera hægt að gera það.

Í öðru lagi tel ég að stjórnvöld eigi að setja sér það að styðja við bakið á Samtökum aldraðra. Ég tel að það skipti mjög miklu máli, t.d. með því að Samtök aldraðra verði með í ráðum þegar kemur að ákvarðanatöku um t.d. lífeyrisbætur og breytingar á lífeyrisbótum og fleira. Ég er auðvitað að tala um heildarsamtök eldri íbúa landsins, þ.e. þau samtök sem heita ef ég man rétt, Landssamband eldri borgara. Ég tel mjög mikilvægt að það verði eitt af sjálfstæðum markmiðum árs aldraðra að treysta stöðu þessara samtaka.

Í þriðja lagi tel ég að á árinu eigi að taka í notkun ný vistrými fyrir aldraða en nú er staðan þannig að það eru 170 aldraðir hér á þéttbýlissvæðinu í því sem heitir mjög brýnni þörf fyrir vistun og ég tel að nota eigi ár aldraðra sem viðspyrnu til að ákveða það að slíkur biðlisti verði ekki til, og að tekið verði á þessu máli þannig að við séum ekki með gamalt fólk við mjög erfiðar aðstæður og slaka aðhlynningu út um allan bæ eins og þetta er hjá okkur núna.

Og í fjórða lagi tel ég, og það er auðvitað það erfiðasta og stærsta en mikilvægt samt, að setja eigi á árinu 1999 eða beint í kjölfar þess taki gildi ný lög um almannatryggingar. Það auðvitað gengur ekki að þau lög, sjálfur tilverugrundvöllur gamals fólks í landinu, séu jafngötótt og raun ber vitni um. Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör.