Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:00:45 (364)

1998-10-14 15:00:45# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. leggur fram fimm fyrirspurnir á fimm þingskjölum um gagnagrunninn til mín. Eins og hv. þm. veit verður umræða um þetta mál á morgun og við getum þá gefið okkur góðan tíma til að fara yfir alla efnisþætti. Ég á von á því að umræðan verði á föstudaginn jafnframt. Ekkert eitt mál hefur fengið meiri umfjöllun í þjóðfélaginu en einmitt gagnagrunnsmálið og er það vel og það er opin og góð umræða um það.

Í fyrstu fyrirspurn sinni spyr hv. þm. hvort sjúklingur eigi þær upplýsingar í sjúkraskrá sem hann varða og hann hefur látið heilbrigðisstarfsmönnum í té. Svarið við því er nei. Í upphaflegu frv. til laga um réttindi sjúklinga var sjúkraskrá skilgreind sem eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða heilbrigðisstarfsmanns sem hana færir í eigin starfsstofu.

Að tillögu hv. heilbr.- og trn. var gerð sú breyting á frv. að í stað þess að skilgreina sjúkraskrá sem eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns, er nú gert ráð fyrir að sjúkraskrá skuli varðveitt hjá þessum aðilum. Þessi breyting felur í sér að heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmenn eru ekki eigendur sjúkraskrár í lögfræðilegri merkingu heldur vörslumenn.

Að teknu tilliti til umfjöllunar Alþingis um frv. til laga um réttindi sjúklinga tel ég að sjúklingur teljist ekki eiga þær upplýsingar í sjúkraskrá sem hann varða og hann hefur látið heilbrigðisstarfsmönnum í té. Þessar upplýsingar eða þessar skrár geta ekki lotið almennum reglum eignarréttar. Sjúklingar eiga ekki rétt á að fara með þær að eigin vild og ekki verður talið að almennar réttarreglur eignarréttar gildi um ráðstöfun þeirra.

Hins vegar gilda um sjúkraskrár ýmis sérákvæði sem nauðsynlegt er talið að setja vegna eðlis þeirra og tilgangs með skráningu þeirra, svo sem að þær skuli varðveittar hjá heilbrigðisstofnunum eða þeim aðilum öðrum sem skrá upplýsingar í sjúkraskrár. Þessir aðilar eru því vörslumenn skránna og hafa sem slíkir ákveðnar skyldur að því er varðar meðferð sjúkraskráa og þeirra upplýsinga sem þar koma fram.