Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:05:31 (366)

1998-10-14 15:05:31# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. fyrirspyrjandi, Hjörleifur Guttormsson, hefur hér imprað á er vissulega eitt af þeim athyglisverðu álitamálum sem upp koma í sambandi við miðlægan gagnagrunn og það frv. sem hefur verið lagt fram. Ég skal ekki meta það hér og nú hvernig við getum túlkað þau lög sem um þessar skrár hafa verið sett nú þegar. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við lendum í miklum vandræðum ef við skilgreinum á ákveðinn hátt að upplýsingar úr sjúkraskrám séu eign sjúkrastofnananna annars vegar eða eign sjúklinganna hins vegar. Við lendum í miklum vandræðum vegna þess að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hægt sé að reka eðlilega heilbrigðisstarfsemi í landinu með þeirri skráningu sem nauðsynleg er nema sjúkraskrárnar séu ekki háðar eignarrétti einstaklinganna sem leggja til upplýsingar. Því til staðfestingar er hægt að benda á það að í flestöllum alþjóðlegum samþykktum er alls ekki gert ráð fyrir því að skrárnar séu í eigu einstaklinganna.