Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:06:54 (367)

1998-10-14 15:06:54# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sú fsp. sem hv. Hjörleifur Guttormsson bar hér fram er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við komum til með að ræða í umræðu um frv. til laga um miðlægan gagnagrunn á morgun. Svo virðist sem þessar upplýsingar fari að verða mikil verðmæti. Þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við ræðum á morgun og vitaskuld grundvallaratriði í efni þessa frv. Þess vegna vakti það eftirtekt mína þegar hæstv. heilbrrh. sagði að sjúklingarnir ættu ekki þessi upplýsingar og að sjúkrastofnanirnar ættu þær ekki heldur. Þess vegna hefði ég haldið, virðulegi forseti, sérstaklega í ljósi þess hversu alvarlegt þetta mál er, að hæstv. heilbrrh. hefði átt að láta vinna einhverja grundvallargreinargerð eða sérfræðiálitsgerð um þetta álitaefni vegna þess að þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við þurfum að ræða.

Það að hæstv. heilbrrh. skuli ekki núna á þessari stundu, eftir alla þá umræðu sem fram hefur farið um miðlægan gagnagrunn, geta komið og sagt okkur af þessari vinnu, segir mér að mikið sé eftir. Það er mikið órætt og mikið óunnið hvað varðar þennan miðlæga gagnagrunn.