Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:11:00 (369)

1998-10-14 15:11:00# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við erum sem betur fer komin lengra en nokkur önnur þjóð varðandi réttindi sjúklinga. Mörg þau álitamál sem hér hafa verið til umræðu erum við komin miklu lengra með heldur en þjóðirnar í kringum okkur og það held ég að hv. þm. ætti sérstaklega að skoða.

Mig langar aðeins að vitna í það sem ég sagði áðan og ítreka það að sjúklingurinn er ekki eigandi að sjúkraskrá í venjulegum skilningi. Hann getur til að mynda ekki krafist þess skilyrðislaust að sjúkraskrá sé eyðilögð. (Gripið fram í: Nei, upplýsingar ...) Upplýsingar um hann sjálfan getur hann að sjálfsögðu fengið og átt. En sjúkraskráin sem slík er varðveitt á heilbrigðisstofnun þar sem hún verður til.

Í námsefni á námskeiði Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands um meðferð persónuupplýsinga í rannsóknum á heilbrigðis- og félagsvísindasviði fjallar Þorgeir Örlygsson lagaprófessor við Háskóla Íslands og formaður tölvunefndar um eignarrétt á sjúkraskrám á grundvelli laga um réttindi sjúklinga. Þar segir hann að því verði ekki haldið fram að sjúklingur, þ.e. sá sem upplýsingar í sjúkraskrá varða, sé eigandi sjúkraskrárinnar í lögfræðilegri merkingu hugtaksins og geti hann því ekki krafist eignarréttar. En hann getur krafist afhendingar á afriti á skránni. Hann getur ekki krafist eyðileggingar á skránni. Hann á hins vegar rétt á að fá aðgang að skránni, rétt til þess að hindra að óviðkomandi aðilar fái aðgang að skránni og rétt til þess að athugasemdir hans um ranga skráningu upplýsinga í sjúkraskrá séu lagðar í skrána.

Virðulegi forseti. Niðurstaða prófessors við lagadeild Háskóla Íslands er því sú að sjúkraskrá sé ekki eign sjúklings og byggir hann þá niðurstöðu m.a. á brtt. heilbr.- og trn. Alþingis við meðferð málsins á 121. löggjafarþingi.