Upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:20:40 (375)

1998-10-14 15:20:40# 123. lþ. 10.11 fundur 53. mál: #A upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Með tilliti til þess að hæstv. ráðherra hefur þegar fullnýtt rétt sinn til þess að tala mun ég verða einkar hógvær og kurteis í máli mínu nú.

Ég vil segja, herra forseti, að það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vekur máls á hérna undirstrikar að enn skortir alla umræðu um hvort rétt sé að allar upplýsingar fari inn í gagnagrunn af þessu tagi. Ég velti því fyrir mér hvort rétt sé að inn í þennan gagnagrunn fari upplýsingar um fóstureyðingar, kynsjúkdóma og um ýmiss konar geðsjúkdóma.

Ég held að afstaða manna til þessa gagnagrunns markist mjög af því að engar umræður hafa átt sér stað um hvers konar upplýsingar muni fara þarna inn. Ef menn vissu af því tel ég að undirtektirnar væru e.t.v. ekki jafnjákvæðar meðal þjóðarinnar og þær eru. Mér finnst að áður en gengið verði frá þessu máli á þinginu þurfi að slá það í gadda að stjórnvöld verði einhvern veginn skyldug til að gefa ríkulegar upplýsingar um eðli upplýsinganna sem þarna fara inn. Meðal annars þarf að fá umræðu um það hvort undanskilja eigi einhverjar upplýsingar frá grunninum.