Miðlægur gagnagrunnur og vísindasiðanefnd

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:27:39 (379)

1998-10-14 15:27:39# 123. lþ. 10.12 fundur 57. mál: #A miðlægur gagnagrunnur og vísindasiðanefnd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr þriggja spurninga á þskj. 57. Þær eru mjög ítarlegar og ég vona að mér takist að svara honum. Ef það skyldi ekki takast þá höfum við tíma bæði á morgun og á föstudaginn.

Í fyrsta lagi vil ég svara því að ráðuneytið hefur ekki haft að engu álit vísindasiðanefndar við vinnu að frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði frekar en álit annarra umsagnaraðila. Þvert á móti hafa umsagnir allra aðila verið málefnalegar. Við endurskoðun frv. munu þær hafa mikil áhrif á sama hátt og hingað til. Það á ekki síst við um umsögn vísindasiðanefndar, enda er hún bæði ítarleg og mjög vel unnin.

Í öðru lagi vil ég svara því til að ég tel að hvorki hafi verið gengið gegn áliti nefndarinnar, ákvæðum laga um réttindi sjúklinga né ákvæðum reglugerðar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði byggist á þeirri forsendu að í gagnagrunninum sjálfum og við vinnslu úr honum verði upplýsingar ópersónugreinanlegar. Varðandi öryggi upplýsinganna í gagnagrunninum skal bent á að samkvæmt frv. er það skilyrði rekstrarleyfis að öryggiskerfi uppfylli kröfur tölvunefndar. Auk þess skal nefnd um starfrækslu gagnagrunns láta fara fram úttekt óháðs sérfræðings á sviði öryggismála upplýsingakerfa áður en vinnsla að gagnagrunninum hefst.

Hér gegnir tölvunefnd sem fyrr veigamiklu hlutverki en án hennar samþykkis, eða þeirrar stofnunar sem hugsanlega mun skipa henni sess í framtíðinni, mun ekki verða unnt að vinna upplýsingar úr gagnagrunninum. Þetta er grundvallaratriði sem aldrei verður of oft ítrekað. Frumvarpið byggist á því að um sé að ræða ópersónugreinanlegar upplýsingar og mun jafnframt gilda um meðferð heilsufarsupplýsinga, núgildandi lög og reglur, svo sem lög um réttindi sjúklinga, reglur um vísindasiðanefnd og lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga eftir því sem við á. Þannig er gert ráð fyrir að þær reglur gildi fyrir rekstrarleyfishafa ef hann hyggst vinna með persónuupplýsingar eins og menn gera í vísindaheiminum í dag.

Hins vegar vil ég leggja áherslu á að ein af grundvallarforsendunum fyrir því að stjórnvöld leggja fram frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði er að þau hyggjast með því bæta aðgengi annarra vísindamanna að rannsóknargögnum og jafna þannig að allir sem hyggjast stunda rannsóknir eigi möguleika á að nálgast samhæfð gögn um land allt. Annars vegar persónugreinanleg gögn á heilbrigðisstofnunum eins og í dag, með því skilyrði að þau hljóti samþykki tölvunefndar og vísindasiðanefndar, og hins vegar ópersónugreinanleg gögn í miðlægum gagnagrunni.

Þess er að vænta að þau skref sem fyrirhugað er að stíga að þessu leyti verði fyrst og fremst til framgangs rannsóknum bæði hér á landi og erlendis. Okkur ber að stuðla að því að við getum skipað okkur í fremstu röð og styðja vísindamenn okkar með þeim tækjum sem við höfum yfir að ráða.

Varðandi starfssvið vísindasiðanefndar og reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði ber að undirstrika að þar er átt við rannsóknir þar sem fjallað er um persónuupplýsingar eða jafnvel beina þátttöku í vísindarannsóknum, samanber 10. gr. laga um réttindi sjúklinga.

Að lokum er spurt um tilgang með skipun vísindasiðanefndar ef ekki eigi að fela henni að fjalla um rannsóknir sem byggjast á upplýsingum úr miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði.

Virðulegi forseti. Enn og aftur vísa ég til þess að við gagnagrunninn á heilbrigðissviði verður einungis unnið með ópersónugreinanlegar upplýsingar sem tölvunefnd hefur heimilað vinnslu og nýtingu á. Með öðrum orðum: Fallist tölvunefnd ekki á hugmyndir um vinnslu, þá verður hún ekki heimiluð. Vísindasiðanefnd mun áfram gegna veigamiklu hlutverki þegar um er að ræða rannsóknir þar sem fjallað er um persónuupplýsingar eða beina þátttöku í rannsóknum.

Virðulegi forseti. Ég fæ tækifæri til að ljúka svari mínu eftir að hv. þm. hefur veitt andsvar.