Miðlægur gagnagrunnur og vísindasiðanefnd

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:33:18 (380)

1998-10-14 15:33:18# 123. lþ. 10.12 fundur 57. mál: #A miðlægur gagnagrunnur og vísindasiðanefnd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef jafnan litið svo á að vísindasiðanefnd eigi að vera eins konar siðræn sía sem bægi frá þeim vísindarannsóknum sem ekki uppfylla tiltekin siðferðileg skilyrði. Þá finnst mér engu máli skipta hvort um er að ræða persónuleg eða ópersónugreinanleg gögn. Frv. í dag er mjög undarlegt að því leyti að gert er ráð fyrir því að þær fyrirspurnir sem berast til gagnagrunnsins verði sendar vísindasiðanefnd eftir að þeim hefur verið svarað. Það er mjög undarlegt fyrirkomulag. Þessu tel ég að þurfi að breyta.

Í annan stað sýnist mér að þetta valdi því að ákveðinn ójöfnuður verður milli vísindamanna. Þeir vísindamenn sem kaupa sér aðgang að gagnagrunninum til að mynda erlendis frá eða starfa innan þess fyrirtækis sem fær rekstrarleyfið þurfa ekki að leggja sínar vísindarannsóknir fyrir vísindasiðanefnd. Það þurfa hins vegar aðrir vísindamenn að gera sem fara í gegnum aðgengisnefndina. Þetta tel ég að skapi óþolandi ójöfnuð milli vísindamanna eftir því hvar þeir eru staðsettir í veröldinni og hvort þeir eru staðsettir innan viðkomandi fyrirtækis sem fær rekstrarleyfið eða utan þess. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að þola að þetta ákvæði sé svona innan frv. og þetta er einn af verstu skafönkunum í frv. núna eftir breytingarnar frá því í vor sem hafa að vísu stórbætt frv.