Miðlægur gagnagrunnur

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:42:01 (384)

1998-10-14 15:42:01# 123. lþ. 10.13 fundur 58. mál: #A miðlægur gagnagrunnur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur gaman af netinu. Ég er búin að standa hér a.m.k. í rúman klukkutíma og svara hv. þm. í beinni útsendingu þannig að hann þarf ekki að kvarta. Eins og ég hef margsinnis komið inn á þá munum við ræða þetta næstu tvo sólarhringa þannig að nógur er tíminn.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. á þskj. 58 sem er fjórða fyrirspurnin til mín þá er hugmyndin um miðlægan gagnagrunn og það frv. sem nú liggur fyrir í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (97) 18 frá 30. september 1997. Samþykktin er meðal þeirra gagna sem vinnuhópurinn kynnti sér sérstaklega, samanber yfirlit í þeim kafla greinargerðar frv. sem fjallar um Evrópurétt og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

Í þessu sambandi vil ég enn ítreka að upplýsingar í gagnagrunninum verða ekki persónuupplýsingar, hvorki í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins um vernd persónuupplýsinga, nr. 95/46, né í skilningi fyrrgreindra tilmæla Evrópuráðsins.