Persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:55:32 (390)

1998-10-14 15:55:32# 123. lþ. 10.14 fundur 62. mál: #A persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Tölvunefnd hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það efa ég ekki og væntanlega styrkist staða hennar með breyttri löggjöf. En ég hef ekki orðið var við að hlustað væri á tölvunefnd í þessu máli eins og ástæða er til. Ég hef ekki orðið var við að það væri mikill skilningur á því hjá hæstv. ráðherra að hlusta mikið á tölvunefnd. Að minnsta kosti hafði hæstv. dómsmrh. ekki miklar áhyggjur af viðhorfum manna sem vinna að hliðstæðum málum erlendis. Það var alveg ljóst.

Ég er að spyrja um álit. Frá hverjum? Þegar ég tala um álit, virðulegur forseti, þá á ég við skriflegar greinargerðir sem hægt er að leggja fyrir Alþingi til skoðunar við meðferð málsins. Hér kom ekkert fram um þau efni. Allt voru þetta óbein viðtöl, álitsgerðir á fundum erlendis o.s.frv.

Í þessu máli verður, virðulegur forseti, og ég hélt að það lægi fyrir við vinnslu hæstv. ráðherra og starfsmanna ráðuneytisins í málinu, að afla skriflegra greinargerða um þau stóru álitaefni sem þessu tengjast, alveg sérstaklega vegna þess að hér er verið að fara inn á alveg nýjan farveg sem ekki hefur verið farið í erlendis. Enda eru menn sem eru að skoða þessi mál og líta til Íslands á fáu meira undrandi þessa dagana en því frv. sem hér hefur verið lagt fyrir Alþingi og á að byggja á því að upplýsingar séu ópersónugreinanlegar þó að það sé nú mat manna margra hverra að svo sé ekki, heldur að um persónugreinanlegar upplýsingar sé að ræða. Og á bak við þetta ætlar hæstv. ráðherra að skjóta sér.

Ég hvet hæstv. ráðherra og alveg sérstaklega heilbr.- og trn. --- það er gott að formaður þeirrar nefndar er hér við umræðuna --- til þess hið bráðasta að leggja þessi efni fyrir stofnanir sem margar hafa fjallað um þau um áratugi, eins og Evrópuráðið sem hefur innan sinna vébanda færustu sérfræðinga á þessu sviði, og sérfræðinga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ekki endilega til að fylgja öllum þeirra ráðum heldur til að hafa þau til hliðsjónar við meðferð málsins.