Gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:03:30 (393)

1998-10-14 16:03:30# 123. lþ. 10.15 fundur 35. mál: #A gagnkvæm menningarsamskipti Íslands og Þýskalands# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld hafa margoft rætt menningarsamskipti Íslands og Þýskalands á undanförnum árum, ekki síst í kjölfar þeirrar ákvörðunar að loka Goethe-stofnuninni í Reykjavík. Ég ræddi þessi mál oft við fyrrverandi utanrrh. í fyrri ríkisstjórn, Klaus Kinkel, sem mun senn láta af embætti og hann tók því mjög vel og vildi reyna að gera hið besta úr málinu. Ég tel að þær viðræður hafi leitt til þess að Þjóðverjar lögðu fram fé til nýrrar Goethe-miðstöðvar. Eins og hv. þm. sagði þá verður hún opnuð nk. föstudag í Reykjavík. Þar verður m.a. hýst bókasafn þeirrar stofnunar sem var lögð niður.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið slys og hafi verið slæmt fyrir samskipti þjóðanna að þessi stofnun var lögð niður. Ég met það svo að ýmsir ráðamenn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þessi stofnun er mikilvæg í samskiptum þjóðanna og það sé mikill vilji til þess að leggja sig fram um að bæta þar úr. Ég met því mikils það skref sem hefur þegar áunnist. Ég tel að mikilvægt sé að varðveita þann grunn sem var þarna fyrir hendi og vænti þess að síðar meir leiði það til þess að þessi starfsemi verði styrkt á nýjan leik.

Það er rétt hjá hv. þm. að við ræddum bæði þessi mál í utanrrn. og ég hygg að ýmsir aðrir hafi gert það sem hittu Gerhard Schröder sem kom í fyrra í opinbera heimsókn sem forsætisráðherra Neðra-Saxlands. Hann hafði einlægan áhuga á samskiptum Íslands og Þýskalands og ég tel að heimsókn hans í fyrra sé mikilvæg fyrir framtíðarsamskipti Íslands og Þýskalands. Að sjálfsögðu er of snemmt að fullyrða um hvaða erindi verða borin upp við nýja ríkisstjórn en það er alveg ljóst að menningarsamskipti þjóðanna verða rædd við ný stjórnvöld. Hins vegar er rétt að taka það fram að eins og allir vita er það að sjálfsögðu þýskra stjórnvalda að taka endanlegar ákvarðanir um menningarstofnanir á þeirra vegum erlendis. Ég get fullvissað hv. þm. um að við munum halda áfram að ræða þessi samskipti og ég er sammála honum um að það væri mjög mikilvægt fyrir samskipti landanna ef hægt væri að endurreisa þessa stofnun með þeim hætti að hér starfaði fullgild Goethe-stofnun. Ég tel hins vegar mjög þýðingarmikið að þó hafi tekist að varðveita þann meið sem hér er til staðar og verður opnaður undir nýju nafni nk. föstudag.

Ég tel ástæðu til að þakka þann mikla áhuga sem margir hafa sýnt sem hafa tengst Þýskalandi með ýmsum hætti. Hv. þm. á miklar þakkir skilið fyrir að sýna þessu máli áhuga ásamt ýmsum öðrum og ég trúi því að sá einlægi áhugi ýmissa Íslendinga verði til þess að opna betur augu þýskra yfirvalda fyrir mikilvægi málsins.