Skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:10:54 (395)

1998-10-14 16:10:54# 123. lþ. 10.16 fundur 67. mál: #A skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Mikil umræða um stöðu frísvæða var hér fyrir nokkrum árum og rekstur slíkra fyrirbæra, um hann gerðar langar skýrslur og skrifaðar greinar. Flestir sem hafa skoðað frísvæðahugmyndina að einhverju ráði hafa heillast af því hvernig hún getur virkað eins og hún hefur gert á Írlandi þar sem ekki hefur einungis risið stórt svæði með frísvæðafyrirtækjum heldur hefur einnig risið stór háskóli í Limerick með um 7.000 nemendum og skapað Írum orð fyrir nýjunar og framsýni sem aðrir reyna að læra af í dag. Sá sem hér stendur hefur skoðað frísvæðið á Írlandi og kynnt sér þessi mál ítarlega sem einn af nefndarmönnum um stofnun frísvæðis á Suðurnesjum en sú nefnd, sem þá starfaði, gaf út skýrslu sem birtist í nóvember 1995.

Hugmyndin fékk slæma útreið áður en skýrslan var komin fram og lítið hefur frést til hennar síðan. Skemmst er frá því að segja að Aflvaki í Reykjavík hafði í maí sama ár og skýrslan kom út rakkað frísvæðahugmyndina niður og allar hugmyndir um frísvæðakjör, hvort sem um var að ræða innan girðingar eða sem samninga um einstök fyrirtæki þar sem ekki væri um aðrar girðingar að ræða en huglægar sem sérstakur skatta-, tolla-, eða styrkjasamningur. Að mati Aflvaka var þessi hugmynd um frísvæði hvítur fíll eða tálsýn byggð á óraunhæfum fyrirmyndum og sóun á fjármunum hins opinbera.

Hæstv. utanrrh., sem ég spurði um þetta mál í júní það sama ár, hafði því ekki mörg fögur orð um þessa hugmynd og sagði m.a., með leyfi forseta, að ,,það þýddi ekki að byggja upp aukið atvinnulíf á Suðurnesjum á einhverjum fölskum forsendum eða grunni sem fengi ekki staðist eða ala á vonum um að koma á sérstöku svæði sem stæðist ekki``. Hér á Alþingi hefur ekkert komið fram um hvaða afdrif skýrslan fékk hjá hæstv. utanrrh. þó opinberlega hafi komið til orðahnippinga milli mín og hæstv. utanrrh. í fréttum eftir útkomu skýrslunnar í nóvember 1995.

Að mínu áliti hefur fátt breyst varðandi réttmæti samninga við nýsköpunarfyrirtæki eða rekstur sem alfarið byggist á útflutningi hráefna eða hugviti. Það sem hefur þó breyst hér á landi er að atvinnuleysi er miklu minna og er það vel en nýsköpun er enn bundin að mestu við stóriðju. Það er ekki hvað síst vegna möguleika á nýsköpun sem ég hef heillast af frísvæðahugmyndinni sem hefur reynst skapa störf fyrir menntafólk og það er eitthvað sem þarf hér. Ég veit að hæstv. utanrrh. vill gera landi og þjóð vel í störfum sínum og hefur reynt að skapa okkur stöðu á alþjóðavettvangi með vörur okkar þó ég telji að hann hafi verið of neikvæður gagnvart frísvæðahugmyndinni.

Ég heyri nú að kvikmyndaiðnaðurinn hafi óskað eftir frísvæðafyrirgreiðslu hér á landi og er það gott innlegg inn í frísvæðaumræðuna. Aflvaki hefur gefið út sérstaka skýrslu samfara þessari hugmynd og kveður nú við allt annan tón hjá því fyrirtæki en áður um frísvæði á Suðurnesjum. Í framhaldi af því spyr ég hæstv. utanrrh.:

,,1. Hefur ráðherra tekið afstöðu til skýrslu frá nóvember 1995 um frísvæði á Suðurnesjum og ef svo er, hver er hún?

2. Hefur einhver athugun á gagnsemi frísvæða eða frísamninga við fyrirtæki farið fram á vegum ráðuneytisins eftir að umrædd skýrsla var afhent?

3. Hefur einhver vinna farið fram á vegum ráðuneytisins um annars konar frísvæði eða frísamninga við erlenda aðila, eins og stofnun kvikmyndavera?``