Skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:13:54 (396)

1998-10-14 16:13:54# 123. lþ. 10.16 fundur 67. mál: #A skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að taka fram í upphafi að spurningin um frísvæði hér innan lands er fyrst og fremst skattalegs eðlis og því má segja að það sé ekki beint í verkahring utanrrn. að fjalla mjög mikið um þau mál almennt. Hins vegar er rétt að skýrsla kom til utanrrh. í fyrri ríkisstjórn á árinu 1995. Ég sagði þá strax að ég teldi einsýnt að þær tillögur sem þar komu fram stangist á við ríkisstyrktarreglur EES-samningsins og ég er enn þeirrar skoðunar. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun hvort menn vilja sækja á um það að koma slíku frísvæði á sem ég tel að eigi ekki að gera vegna þess að við munum strax lenda í árekstrum um það mál.

[16:15]

Ég tel að sú hugmynd sem þar hefur verið til umfjöllunar sé á margan hátt úrelt. Frísvæði voru tekin upp víða um heim vegna þess að efnahagslífið var vanþróað. Það átti við um Írland á sínum tíma. Það á ekki við núna. Slík svæði hafa verið tekin upp í allstórum stíl t.d. í Kína og víða í Asíu þar sem menn hafa ekki getað treyst á hið almenna efnahagslíf.

Hins vegar hefur allt önnur leið verið farin að því er varðar Suðurnes með ágætum árangri. Þar hefur verið farin sú leið að efla starfsemina í kringum Keflavíkurflugvöll. Það er í fullum gangi og hefur skilað miklum árangri, enda hefur atvinnuleysi minnkað mikið á því svæði. Ég hef því verið þeirrar skoðunar að mikilvægara sé að byggja á réttum grunni og hafa enga tálsýn í því sambandi. Þannig hefur verið unnið að þessum málum. Þegar skýrslan kom fram á sínum tíma var markmiðið að bregðast við samdrætti með atvinnusköpun og þar kom líka fram að auka þyrfti tekjur Keflavíkurflugvallar.

Ég veit ekki betur en hollenskt fyrirtæki hafi ákveðið að setja sig niður á þessu svæði vegna þess að þar er góður aðgangur að Evrópumarkaðnum, eða er það kanadískt fyrirtæki? Ég er ekki alveg viss um það. Það mun vera í sambandi við kæliskápa eða einhverjar slíkar vörur og er mjög jákvætt. Þar með er viðurkennt að á þessu svæði eru miklir möguleikar. Í kringum Keflavíkurflugvöll eru miklir möguleikar og við þurfum að vinna að því af fullum krafti. Það hefur verið gert í flugstöðinni og þar hefur mörgu verið snúið við.

Svo ég svari annarri spurningunni þá hefur engin slík athugun farið fram á vegum utanrrn. Ég tel það í verkahring annarra ráðuneyta að standa fyrir slíku. Ég vísa til svara viðskrh. við fyrirspurn hér um starfsemi kvikmyndavera á Íslandi.

Svarið við þriðju spurningunni er sama eðlis. Engin slík vinna hefur farið fram á vegum utanrrn. en önnur ráðuneyti hafa unnið að þeim málum og ég vísa til svars viðskrh. í því sambandi enda er hér um að ræða mál sem fyrst og fremst eru á verksviði fjmrh. og viðskrh. Þetta eru verkefni sem ekki eru á verksviði utanrrh. Hverjar sem ástæðurnar voru fyrir því að nefndin var sett upp á hans vegum á sínum tíma þá tel ég að það samrýmist ekki verkaskiptingu ráðuneytanna.