Skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:18:14 (397)

1998-10-14 16:18:14# 123. lþ. 10.16 fundur 67. mál: #A skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóð svör. Ég er út af fyrir sig alveg sammála hæstv. ráðherra um að þetta mál hafi aldrei átt heima hjá utanrrn. Ég hygg að ástæðan fyrir því að þetta fór upphaflega þangað hafi verið að hugmyndirnar snerust um að starfsemin yrði innan vallar og utanrrh. hefur einn nánast alræðisvald innan þess svæðis.

Það er svo aðalmálið að tillögurnar í skýrslu vinnuhópsins sem gefin var út í nóvember 1995 voru á annan veg en að stofna frísvæði innan girðingar á Keflavíkurflugvelli. Hugmyndin var sú að hægt væri að stofna til slíkra fyrirtækja hvar sem væri innan þéttbýlis og þannig hægt að gera samninga við fyrirtæki sem störfuðu á allt öðrum forsendum, þannig að þarna væru aðeins ímyndaðar girðingar en ekki hinar hefðbundnu gaddavírsgirðingar sem áður fyrr aðgreindu slíka starfsemi frá annarri starfsemi í landinu.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á sérstaka úttekt á vegum Eftirlitsstofnunar EFTA um hvar megi hafa sérstakar aðgerðir til styrktar atvinnulífi. Samkvæmt henni er það á Íslandi leyfilegt á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Að mínu áliti er því ekki hægt að orða það svo að þetta sé úrelt fyrirkomulag. Hugmyndir sem snúa að stofnun fyrirtækja með þessum fríðindum eru sífellt að koma fram. Þær eru því ekki úreltar en ég viðurkenni auðvitað að hægt er að breyta hugmyndinni þannig að hún aðlagist betur nútímaviðskiptum.