Skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:20:33 (398)

1998-10-14 16:20:33# 123. lþ. 10.16 fundur 67. mál: #A skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef mikinn skilning á atvinnumálum á Suðurnesjum og viðurkenni fúslega ábyrgð utanrrn. í því sambandi enda reynum við að sinna þeim skyldum af bestu getu. Ég tel að það geti vart hafa verið hugmyndin að koma þessari atvinnustarfsemi fyrir inni á varnarsvæði. Það er alveg ljóst að um slíkt hefði þurft samninga við Bandaríkjamenn. Það er ekki hægt að setja upp hvaða atvinnustarfsemi sem er inn á varnarsvæðunum. Við þurfum að gæta nokkuð að okkur í þeim efnum.

Síðan breytist hugmyndin, það er rétt, í að þetta væri starfsemi sem koma mætti fyrir á ýmsum stöðum á Suðurnesjum. Þá spyrja menn náttúrlega í framhaldi af því: Verður þá ekki að gilda hið sama um önnur svæði á landinu, t.d. Vestfirði, Austfirði og um ýmsa staði þar sem atvinnumál standa öllum fæti? Þá erum við komin út í að gerbreyta öllum skattamálum hér á landi. Hér er því um mjög stóra prinsippspurningu að ræða sem ég held að sé meinloka. Ég tel að rangt sé að eyða miklum tíma í hana. Ég held að vænlegra væri að eyða frekar kröftunum í eitthvað annað, eins og menn gera af fullum krafti á Suðurnesjum í dag, en að tala um eldgamlar og úreltar hugmyndir.