Gagnagrunnur á heilbrigðissviði og samkeppnisreglur

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:28:55 (401)

1998-10-14 16:28:55# 123. lþ. 10.17 fundur 59. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði og samkeppnisreglur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:28]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég efa ekki að formi til það sem hæstv. ráðherra vék að. Ég vil ekki vefengja það að neinu leyti. Mér er auðvitað ljóst að það er álitaefni hvort ég ætti að beina svona fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. eða hæstv. viðskrh. Hitt gat komið til greina vegna þess að frv. er auðvitað á forræði hæstv. heilbrrh. en umsögn Samkeppnisstofnunar er mjög eindregin í þessu efni.

Ég fékk ekki séð nema að einu atriði hefði verið breytt að fenginni þessari umsögn. Eftir standa mjög veigamiklar athugasemdir sem hljóta að kalla fram spurningar um réttarstöðuna. Ég vitnaði í tilskipun nr. 96/9 frá 11. mars 1996 sem ber að lögleiða hér og mun vera einhvers staðar á leiðinni til fullgildingar í kerfinu. Menn þurfa því að búa sig undir það nema menn ætli að hafna henni og taka því sem að höndum ber í framhaldi af því.

Í sambandi við ,,sinnar tegundar`` rétt sem svo er kallaður og lýst er í 7. gr., þá vil ég nota tíma minn, virðulegi forseti, til að lesa það sem þar stendur:

,,Þegar unnt er að sýna fram á að lagt hafi verið út í umtalsverða fjárfestingu til að afla, sannprófa eða setja fram efni gagnagrunns, metið með hliðsjón af magni eða mikilvægi, skulu aðildarríkin tryggja höfundi gagnagrunnsins rétt til að koma í veg fyrir útdrátt og/eða endurnýtingu á öllum eða umtalsverðum hluta hans, metið með hliðsjón af magni eða mikilvægi.``

Þetta varðar bæði einstaklinga og fyrirtæki. Í mínum huga vaknar spurningin, ég er ekki að krefjast þess að ráðherra svari því: Hvers vegna einkaleyfi eða rekstrarleyfi með þessum sterku kvöðum sem eru í frv. ef þessi tilskipun um gagnagrunna hjá Evrópusambandinu veitir svonefndum höfundi þann sterka rétt sem þar er vísað til?