Starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:31:29 (402)

1998-10-14 16:31:29# 123. lþ. 10.18 fundur 68. mál: #A starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Í sumar heyrðist í fréttum að bandarískir aðilar hefðu áhuga á að stofnsetja kvikmyndaver hér á landi og nýta sér ægifagra náttúru þessa lands til kvikmyndagerðar. Það verður að teljast viðburður þegar slík tíðindi berast, enda er þessi iðnaður einhver sá stærsti í heiminum þar sem sérfræðingar, listamenn og rithöfundar o.s.frv. koma við sögu, og um leið vel launuð störf. Óskir þessara kvikmyndaframleiðenda frá Bandaríkjunum voru þær, svo að af þessu gæti orðið, að ákveðin skattfríðindi fylgdu starfseminni hér á landi ásamt öðrum fríðindum sem tíðkast um slíka starfsemi, t.d. á Írlandi þar sem frísvæði og frísamningar hafa þróast frá því á 6. áratugnum.

Að mínu áliti er ekkert eðlilegra en að nota þau tækifæri sem gefast til að auðga atvinnulífið hér á landi, nýta sér þá athygli sem landið nýtur um þessar mundir og þann áhuga erlendra aðila til starfrækslu áhugaverðra fyrirtækja eins og kvikmyndavera. Það er ekki í fyrsta sinn að áhugi erlendra aðila hefur komið upp á fyrirtækjarekstri með frísvæðasniði hér á landi. Það má segja, að þegar slíkir aðilar hafa fjárfest í einhverjum mæli hér á landi hefur starfsemin verið með slíkum kjörum. Má í því sambandi nefna álver í Straumsvík, járnblendið og kísiliðjuna í Hvalfirði. Fyrir minni fyrirtæki er þessi ferill allt of langur og erfiður og vill oft fara svo að þegar langri skoðun ráðuneyta er lokið og álits atvinnurekenda hefur verið leitað, er áhugi hins erlenda aðila horfinn. Hann hefur ekki tíma eða nennu til að bíða eftir stirðbusalegri afgreiðslu ráðuneyta og leitar því til Írlands þar sem allir slíkir samningar ganga fljótt fyrir sig. Fyrir þremur árum lagði nefnd um frísvæði fram hugmyndir sínar um að laða hingað fyrirtæki með frísamningum. Samhliða því leitaði forsrn. eftir því við Eftirlitsstofnun EFTA hvar mætti setja sérreglur til að örva atvinnulíf og fjölbreytni með aðgerðum ríkisins. Svarið kom og leyfilegt er að setja slíkar reglur á öllum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Það þarf varla að rifja það upp fyrir hæstv. viðskrh. að ástandið á landinu utan höfuðborgarsvæðisins er að verða mjög alvarlegt vegna fólksflutninga frá blómlegum stöðum um land allt, staða sem að flestu leyti eru óskastaðir fjölskyldufólks en vegna fábreytni atvinnulífsins og þeirrar kröfu nútímans að báðir foreldrar vinni úti, verður fólk að flytja á höfuðborgarsvæðið. Að setja lög um frísvæði og frísvæðakjör fyrirtækja er að mínu áliti löngu tímabært og gott innlegg í þá baráttu að stemma stigu við fólksflóttanum af landsbyggðinni. Ef við hefðum löggjöf um frísvæðasamninga væri búið að negla niður þennan kvikmyndarisa með starfsemi hér á landi, að mínu áliti. Slík starfsemi mun tvímælalaust styrkja atvinnulífið hér á landi og auka fjölbreytni og styðja við íslenska kvikmyndagerð. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:

,,Er fyrirhugað að gera einhvers konar frísvæðasamning um kvikmyndaiðnað á Íslandi?

Hefur skýrsla um frísvæði á Suðurnesjum sem afhent var utanríkisráðherra 15. nóvember 1995 verið skoðuð af viðskiptaráðuneytinu þannig að kvikmyndaver gæti risið á grunni niðurstaðna hennar?

Er fyrirhugað að leggja fram frumvarp til laga sem geri mögulegt að fyrirtæki eins og kvikmyndaver hefðu frísvæðakjör hér á landi?``