Starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 16:40:12 (404)

1998-10-14 16:40:12# 123. lþ. 10.18 fundur 68. mál: #A starfsemi erlendra kvikmyndavera á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[16:40]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskrh. fyrir góð svör og jákvætt innlegg og umræðu um þessi mál. Ég er sammála honum um að þetta er kannski ekkert einfalt mál og þarf að skoðast vel, en ég vil nú samt minna á að búið er að skoða þessi mál, t.d. um frísvæðamöguleika og samninga við fyrirtæki með einhvers konar sérkjörum í mörg ár og niðurstaðan hefur aldrei í raun fengist í gegnum samþykktir í þinginu eða í ráðuneytum vegna þess að mjög margir aðilar innan atvinnulífsins eru á móti því að sett séu upp einhver slík sérkjör hér á landi.

Ég minntist aðeins á það í ræðu minni að samkvæmt úrskurði EFTA væri leyfilegt að ívilna sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins þegar um viðskiptasamninga eða sérkjör væri að ræða og aðstæður byðu upp á það. Ég velti því fyrir mér hvort það geti ekki verið ein leið til að þetta rúmaðist innan reglna Evrópusambandsins, að höfða til þess fólksflótta sem augljóslega er að verða gríðarlegt vandamál hér á landi og menn þurfa að finna einhverjar aðrar leiðir en þær hefðbundnu sem hingað til hafa verið notaðar. Það virðist ekkert ætla að stoppa þann flótta, a.m.k. ekki þær aðgerðir sem Byggðastofnun og aðrir aðilar hafa reynt að viðhafa eftir bestu getu. Það er ekkert sem virðist geta breytt þessu miðað við þær aðferðir sem notaðar eru. Ég held því að við þurfum virkilega að leggja höfuðið í bleyti og finna alvöruaðferðir og ég heyri að hæstv. viðskrh. er fullur af vilja til að leysa þetta mál og ég vona svo sannarlega að það verði til þess að við getum reist slíkt kvikmyndaver hér á landi.