Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 10:34:41 (406)

1998-10-15 10:34:41# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), ÓE
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[10:34]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Fyrir hönd forsn. Alþingis mæli ég fyrir starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1997. Lögum samkvæmt ber stofnuninni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan var gefin út og birt í maímánuði sl. Með sama hætti og á liðnum árum mun ég hér á eftir gera grein fyrir því helsta úr skýrslunni auk þess sem ég mun víkja að nokkrum öðrum atriðum er tengjast starfsemi stofnunarinnar.

Svo sem ráða má af skýrslunni var starfsemi Ríkisendurskoðunar á síðasta ári með hefðbundnu sniði. Í samræmi við lögbundið hlutverk sitt fór stofnunin yfir og endurskoðaði reikningsskil ríkissjóðs og ríkisaðila, gekk úr skugga um að fjárráðstafanir og fjárskuldbindingar þeirra styddust við tilskildar heimildir auk þess sem hún lauk við nokkur verkefni á sviði stjórnsýsluendurskoðunar en í slíkri endurskoðun felst að kanna hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri einstakra stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins.

Starfsmenn í föstum stöðugildum hjá Ríkisendurskoðun voru alls 42 á árinu 1997 sem er sami starfsmannafjöldi og árið á undan. Hjá stofnuninni störfuðu einnig sex starfsmenn sem voru tíma- eða verkefnaráðnir. Útgjöld stofnunarinnar að frádregnum sértekjum námu alls 171,5 millj kr. á síðasta ári samanborið við 161,2 millj. kr. á árinu 1996. Sé tekið tillit til launa- og verðlagsbreytinga á milli áranna hækkuðu útgjöldin að raungildi um 2,4%. Aukning útgjalda skýrist að verulegu leyti af auknum ferðakostnaði vegna endurskoðunar alþjóðastofnana ásamt úttekt bresku ríkisendurskoðunarinnar á stofnuninni.

Almennt má segja að útgjöld stofnunarinnar hafi verið mjög svipuð frá einu ári til annars á liðnum árum og ætíð hafa þau verið vel innan fjárheimilda. Af einstökum liðum námu launaútgjöld 125,9 millj. kr., en það svarar til 69% af heildarútgjöldum stofnunarinnar á árinu 1997. Annar stærsti útgjaldaliðurinn er aðkeypt þjónusta, en hún nam um 30,6 millj. kr. á árinu 1997, eða sem svarar til tæplega 17% af heildargjöldum. Hér er fyrst og fremst um að ræða aðkeypta þjónustu af löggiltum endurskoðendum sem starfa í umboði Ríkisendurskoðunar við endurskoðun ríkisstofnana, ríkisfyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins. Á árinu 1997 voru í gildi samningar við 28 endurskoðunarstofur um endurskoðun á 96 ríkisaðilum. Verkefnum þessum sinna skrifstofurnar í umboði Ríkisendurskoðunar og í samráði við hana. Kostnaðurinn er borinn af Ríkisendurskoðun ef um A-hluta stofnun er að ræða en annars af viðkomandi ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki.

Stofnunin heldur mjög nákvæmt verkbókhald. Samkvæmt því skiluðu starfsmenn hennar alls 60.949 vinnustundum við endurskoðun og tengd verkefni. Þessu til viðbótar keypti stofnunin 5.723 tíma af sjálfstætt starfandi löggiltum endurskoðendum. Heildarvinnustundafjöldi var því tæplega 66.700 á síðasta ári samanborið við 67.300 á árinu 1996. Til fróðleiks skal þess getið að kostnaður við hverja unna vinnustund samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar nam um 2.457 kr. á síðasta ári samanborið við rúmar 2.400 kr. á árinu 1996. Á hinn bóginn greiddi stofnunin fyrir aðkeypta sérfræðiþjónusta á sviði endurskoðunar 4.448 kr. á síðasta ári, en rétt rúmar 3.600 kr. á árinu 1996.

Stofnunin gerir verkefnaáætlun fyrir hvert ár. Þar er lagður grunnur að sérstökum endurskoðunarverkefnum og helstu áhersluþættir markaðir. Grunnur þessara áætlana er áðurnefnt verkbókhald. Á síðasta ári var gert ráð fyrir að verja liðlega 37.300 vinnustundum til fjárhagsendurskoðunar og 6.600 vinnustundum til verkefna á sviði stjórnsýsluendurskoðunar. Í meginatriðum stóðust þessar áætlanir. Á sviði fjárhagsendurskoðunar var sérstök áhersla lögð á að kanna innra eftirlit stofnana, laun- og starfstengda liði ásamt því að meta hvort fjárhagsupplýsingar séu nýttar til stjórnunar og eftirlits. Alls var endurskoðað hjá 271 ríkisaðila.

Á árinu 1997 sendi stofnunin frá sér alls 157 skýrslur og greinargerðir. Af þeim voru 146 unnar á fjárhagsendurskoðunarsviðum stofnunarinnar og ellefu af starfsmönnum stjórnsýslu- og lögfræðisviða. Skýrslur um fjárhagsendurskoðun eru að jafnaði ekki gerðar opinberar. Í árlegri skýrslu stofnunarinnar um ríkisreikning, sem lögð er fram hér á Alþingi og er opinbert gagn, er þó venjulega gerð grein fyrir meginefni framangreindra skýrslna og greinargerða. Skýrslur stjórnsýslusviðs stofnunarinnar eru á hinn bóginn öllum aðgengilegar. Þær eru eðli málsins samkvæmt langtum færri en skýrslur um fjárhagsendurskoðun en á móti kemur að þær eru mun umfangsmeiri. Helstu skýrslurnar frá stjórnsýslusviðinu voru um hafnarframkvæmdir, flugvallarframkvæmdir, læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins og skipulag skattkerfanna á Norðurlöndum. Þá vann stofnunin m.a. greinargerð um þróun útgjalda sjúkrahúsanna í Reykjavík auk annars. Í starfsskýrslunni er gerð grein fyrir því helsta úr skýrslum þessum.

Eins og ég hef minnst á í fyrri ræðum mínum um störf Ríkisendurskoðunar er stofnuninni að lögum heimilt að fela löggiltum endurskoðendum að annast einstök verkefni sem henni er falið að sinna. Um árabil hefur stofnunin samið við sjálfstætt starfandi löggilta endurskoðendur um að sinna tilteknum verkefnum á sviði fjárhagsendurskoðunar. Einkum hefur hér verið um að ræða endurskoðun reikninga stofnana og sjóða í B-hluta ríkisreiknings og sjálfseignarstofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs.

Ljóst er að sum af þeim verkefnum sem stofnuninni ber að sinna á sviði fjárhagsendurskoðunar og sem hún hefur í hyggju að fela öðrum að annast eru svo stór og umfangsmikil að þau ber að bjóða út samkvæmt reglum EES. Má hér einkum nefna verkefni á borð við endurskoðun banka og sjóða í eigu ríkisins. Útboð af þessu tagi hefur nú farið fram á vegum stofnunarinnar og er ljóst að nokkur fjárhagslegur ávinningur hlýst af þessu fyrirkomulagi. Mun þetta vera í fyrsta skipti hér á landi sem endurskoðunarþjónusta er boðin út með þessum hætti, en slíkt er algengt víða erlendis.

Könnun á innra eftirliti stofnana og fyrirtækja er svið sem fer ört vaxandi innan endurskoðendastéttarinnar. Í lögum um Ríkisendurskoðun sem afgreidd voru hér á Alþingi vorið 1997 er sérstaklega kveðið á um að stofnunin skuli kanna innra eftirlit og hvort það tryggir viðunandi árangur. Við þessum nýju lagafyrirmælum hefur Ríkisendurskoðun brugðist skjótt, en síðastliðin tvö ár hefur hún unnið markvisst að því að kanna innra eftirlit hjá ríkisstofnunum við fjárhagsendurskoðun. Er nú unnið að því að gefa út sérstaka handbók til að vekja athygli stjórnenda á þessu mikilvæga sviði og er ætlunin að dreifa henni til allra ríkisstofnana þegar henni verður lokið. Mun það vonandi skila sér í markvissari og árangursríkari rekstri ríkisstofnana á komandi árum.

Endurskoðun upplýsingakerfa er einnig mikilvægt svið sem vaxið hefur jafnt og þétt á undanförnum árum. Ríkisendurskoðun hefur um nokkurt skeið unnið að því að móta sér verklagsreglur um þessa tegund endurskoðunar og byggir stofnunin í því sambandi á alþjóðlegum stöðlum. Á árinu 1997 vann stofnunin sérstaka skýrslu um vandamál tengd ártalinu 2000 í rekstri tölvukerfa ríkisins. Skýrslan vakti marga stjórnendur ríkisstofnana til umhugsunar um þetta mikilvæga málefni. Hjá stofnuninni er nú í vinnslu skýrsla um rekstrartruflanir í tölvukerfum ríkisins og kemur hún út innan skamms.

Fyrir stofnun á borð við Ríkisendurskoðun, sem sinnir ekki aðeins hefðbundinni endurskoðun, heldur og ráðgjöf í formi álits- og greinargerða og eftirliti, er mjög brýnt að fylgjast með og aðlaga sig að þróun og breyttum tímum. Þetta á bæði við um ytri starfsskilyrði, svo sem lagarammann sem dreginn er um starfsemina, og hið innra skipulag og verklag. Að mínu áliti hefur Ríkisendurskoðun brugðist vel við þeim breytingum sem átt hafa sér stað í rekstrarumhverfi ríkisins á undanförnum árum. Í því sambandi ber sérstaklega að nefna að stofnunin hefur nú lokið við að móta sér verklagsreglur um allflesta þætti þeirrar vinnu sem henni er falin lögum samkvæmt með útgáfu sérstakra endurskoðunarhandbóka. Nú mun vera unnið að því að móta verklag um umhverfisendurskoðun innan stofnunarinnar, en nýverið voru ráðnir tveir sérfræðingar á sviði umhverfismála til að vinna að þessum málaflokki í framtíðinni.

Í verkefnaáætlun Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1999 gerir stofnunin ráð fyrir að verja alls um 65.000 vinnustundum í endurskoðun samanborið við áætlun um 61.000 tíma á yfirstandandi ári. Þessi vinnustundaaukning kemur fram í aukinni áherslu á stjórnsýslu- og umhverfisendurskoðun innan stofnunarinnar á næsta ári. Með sama hætti er gert ráð fyrir að útgjöld Ríkisendurskoðunar aukist nokkuð eða um rúmar 9 millj. kr. að frádregnum sértekjum. Undanfarið hefur stofnunin unnið að því að ráða til sín fólk til að sinna þessu aukna verkefnaumfangi og mun því nú að mestu vera lokið.

Að lokum vil ég, herra forseti, flytja fyrir hönd forsætisnefndar Ríkisendurskoðun og starfsmönnum Ríkisendurskoðunar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.