Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 11:18:02 (410)

1998-10-15 11:18:02# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), GHall
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[11:18]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns hvað áhrærir ágæti þessarar skýrslu og jafnframt það líka að ég tel að Ríkisendurskoðun sé sá farvegur sem Alþingi á að byggja afstöðu sína á til ýmissa mála hvað áhrærir áður veittar fjárveitingar til ýmissa ríkisfyrirtækja. Ég tel að rétt sé og kannski umhugsunarefni hvort ekki megi betur ná samspili milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar hvað þessi mál áhrærir almennt.

Þegar litið er yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram á bls. 14 ágætt yfirlit yfir það að breska ríkisendurskoðunin hafi komið hingað til lands og litið á starfsemi Ríkisendurskoðunar hér á landi og telji margt ágætt um þá starfsemi. Það sem hins vegar vekur athygli mína er að þær ábendingar sem fram hafa komið af hálfu bresku ríkisendurskoðunarinnar í garð Ríkisendurskoðunar hér á landi koma ekki allar fram. Ég hef a.m.k. ekki rekið augun í það hér að það hafi verið til umræðu á Alþingi eða þeim upplýsingum verið dreift um ádrepur bresku ríkisendurskoðunarinnar hvað varðar starfsemi hinnar íslensku. Það vekur þess vegna athygli og kallar á spurningar og svör við því sem hér stendur frá Ríkisendurskoðun þegar eftirfarandi textar eru lesnir. Með leyfi forseta, segir hér:

,,Að mati NAO`` --- þ.e. bresku ríkisendurskoðunarinnar --- ,,er lofsvert hversu margar skýrslur eru gefnar út á vegum stjórnsýsluendurskoðunarsviðs Ríkisendurskoðunar miðað við starfsmannafjölda.``

Það er kannski eitt af þeim fyrirbrigðum sem hrjáir starfið hér á Alþingi, þessi ógrynni skýrslna sem gefnar eru út, þannig að ég hef ekki litið svo á að það væri mælikvarði á ágæti einhverrar ríkisstofnunar hversu margar skýrslur eru þar gefnar út. Í annan stað segir, með leyfi forseta:

,,Þá kom einnig fram að æskilegt væri að lögð yrði meiri áhersla á eftirfylgni með skýrslum stofnunarinnar.``

Það eru margar skýrslur gefnar út og svo ekki meir, og það er kannski einkenni þessarar ágætu ríkisstofnunar og margra annarra í öllu því skýrslugerðarflóði sem flýtur inn um dyr Alþingis og til alþingismanna. Eftirfylgni þeirra skýrslugerða sem unnar eru er mjög takmörkuð. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,NAO telur að Ríkisendurskoðun eigi sjálf að hafa meira frumkvæði við val á verkefnum í stjórnsýsluendurskoðuninni.``

Þá vaknar sú spurning: Getur verið að það séu einhverjir aðrir aðilar sem segi þessari ágætu stofnun hvar hún eigi að drepa niður fæti til að endurskoða þá fjármuni sem Alþingi úthlutar til ýmissa ríkisfyrirtækja? Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það væri hún sjálf sem hefði frumkvæðið í einu og öllu hvað þetta mál varðar. Eðlilega koma upp dæmi þar sem bent er á í umræðum á Alþingi að betur þurfi að skoða mál og athuga innan ríkisfyrirtækis og það er ekkert óeðlilegt. En að Ríkisendurskoðun skuli ekki hafa meira frumkvæði en kemur fram í ádrepu bresku ríkisendurskoðunarinnar er umhugsunarefni. Hvernig má það þá vera, þegar þetta þrennt er borið upp og vitnað til, að þessar ádrepur komi ekki inn á borð Alþingis í einu og öllu? Þá vaknar upp sú spurning: Getur verið að dæmi séu um að Ríkisendurskoðun sé að endurskoða sjálfa sig? Eru einhver dæmi um það í starfsemi ríkisfyrirtækja að Ríkisendurskoðun sjái um bókhald eða endurskoðun bókhalds og endurskoði síðan sjálfa sig í því efni?

Það kom fram hér í framsögu að samið hefði verið við allmargar endurskoðunarskrifstofur um vinnu og kemur þá Ríkisendurskoðun að þegar endurskoðun þessara viðskiptaaðila, þ.e. endurskoðunarskrifstofa er lokið. En er það alfarið svo? Það má skilja hlutina þannig, og kannski skjátlast mér, en ég skil það á þá leið að dæmi séu um að Ríkisendurskoðun bæði framkvæmi og endurskoði svo sín eigin verk. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þær ábendingar sem fram komu af hálfu NAO eru réttmætar og gagnlegar að mati stofnunarinnar og hefur verið kappkostað við að hrinda þeim í framkvæmd undanfarna mánuði. Með þeim hætti er tryggður enn frekari árangur í starfsemi Ríkisendurskoðunar.``

Það væri vissulega áhugavert að fá að sjá hvað þarna hefur komið fram, hvað það er sem breska ríkisendurskoðunin hefur haft við þessa starfsemi að athuga.

Ekki ætla ég að gagnrýna bresku ríkisendurskoðunina en er það hún ein sem getur gefið bestu ráðin sem fyrirfinnast í veröldinni? Er ekki eðlilegt að leitað væri jafnvel hér innan lands? Hér eru mörg fyrirtæki nú orðið sem vinna á þessu sviði og væri full þörf á að innlendir aðilar kæmu líka að til að skoða þessi vinnubrögð. Ekki það að ég sé að gagnrýna þau með neinum hætti heldur hitt að hér fleygir tækninni og tölvuvæðingunni fram og ég tel ekki óeðlilegt að hæfir Íslendingar, sem vinna hjá mörgum fyrirtækjum sem bjóða þessa þjónustu, kæmu þarna að til að skoða þessa hluti.

Í annan stað vildi ég aðeins grípa niður í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 16 og 17. Þar koma fram athugasemdir um tvö fyrirtæki, þ.e. annars vegar um hafnarframkvæmdir og hins vegar um flugvallarframkvæmdir. Varðandi hafnarframkvæmdirnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun gerði sérstaka athugun á því hvernig staðið var að þeim hafnarframkvæmdum sem notið hafa styrks úr ríkissjóði og Hafnamálastofnun (nú Siglingamálastofnun Íslands) hefur umsjón með. ... Ríkisendurskoðun kannaði með úrtaki framkvæmd áætlana um hafnarframkvæmdir árið 1992--1995. Af þeim 62 framkvæmdum sem teknar voru út voru 43 af hafnaáætlun. Alls 21 framkvæmd var lokið á tilsettum tíma miðað við hafnaáætlun og var 22 framkvæmdum flýtt eða frestað. Ríkisendurskoðun bar saman kostnaðaráætlanir Hafnamálastofnunar við raunkostnað við hafnargerð. Sá samanburður sýndi að í mörgum tilfellum reynist kostnaður umfram þær nákvæmniskröfur sem gerðar eru til slíkra áætlana við opinberar framkvæmdir. Í ljós kom að ráðist var í nokkrar hafnarframkvæmdir án þess að útboð hafi farið fram þrátt fyrir að bæði hafnalög og lög um skipan opinberra framkvæmda mæli fyrir um að það skuli að jafnaði gert.`` --- Síðan kemur: --- ,,Við athugun á tæknilegu uppgjöri hverrar framkvæmdar kom í ljós að Hafnamálastofnun gerir ekki framkvæmdaskýrslur þegar framkvæmdum er lokið. Ríkisendurskoðun telur að Hafnamálastofnun eigi að gera slíkar framkvæmdaskýrslur fyrir hverja framkvæmd.``

Þá kemur í huga mér: Og hvað svo? Hvað gerist svo þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur verið lögð fram um þessa stofnun? Sömuleiðis er komið inn á flugvallaframkvæmdir og virðist þar vera svipað uppi á teningnum. Hver er það sem fylgir þessu máli eftir um að ekki skuli svona staðið að málum? Hefur Ríkisendurskoðun vald til þess að sjá svo um að það gerist ekki eða er þessu beint hingað til Alþingis? Er það þá fjárln. sem tekur á því? Er það viðkomandi ráðherra? Eða er það viðkomandi starfsnefnd þingsins? Ég er hræddur um, eins og ég gat um áðan, að mikið sé um skýrslur en lítið um eftirfylgni eins og kemur fram hjá bresku ríkisendurskoðuninni.