Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 11:59:26 (421)

1998-10-15 11:59:26# 123. lþ. 11.5 fundur 60#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[11:59]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1996 sem við erum nú að fjalla um er mikil að vöxtum og snertir mjög marga þætti og mörg mál sem upp komu í samfélaginu á því ári. Kannski sannar skýrslan og umfang hennar betur en margt annað hve mikið það er sem þarf að taka á í stjórnsýslunni og hefur verið gert af hálfu umboðsmanns.

[12:00]

Ég vil aðallega koma inn á það sem kom reyndar fram í andsvari hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar áðan og vakti sérstaka athygli mína þegar ég fór yfir skýrslu umboðsmanns. Það er þar sem umboðsmaður fjallar um málshraðareglu stjórnsýslulaganna, 9. gr. stjórnsýslulaga. Eins og komið hefur fram er gert ráð fyrir því að mál samkvæmt stjórnsýslulögum eða erindi sem stjórnvöldum berast skuli afgreiða svo fljótt sem verða má. Umboðsmaður greinir frá því að hann hafi fljótlega eftir að han hóf störf árið 1988 orðið var við mjög óviðunandi tafir í þessu tilliti og bendir á að mikill fjöldi manna sem leiti til hans leiti einmitt þangað gagngert af þeim sökum að málum er ekki sinnt af þeim hraða sem væri æskilegt innan stjórnsýslunnar.

Hann bendir jafnframt á að þessi mál hafi staðið til bóta á þeim 10 árum frá því embætti umboðsmanns tók til starfa en að enn séu til stjórnvöld sem virði ekki þessa málshraðareglu. Að sjálfsögðu er það líka rétt sem fram kom í andsvari hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það er að sjálfsögðu alltaf þannig í stjórnsýslu og meðferð stjórnvalda á erindum sem til þeirra berast, að þar þurfi að vegast á annars vegar sú krafa að sæmileg skilvirkni sé í gangi þannig að málum sé hraðað eins og unnt er, en þó sé þeim ekki hraðað það mikið að það verði á kostnað réttaröryggis borgaranna. Að sjálfsögðu hlýtur málshraðareglan að taka mið af því meginsjónarmiði.

Dráttur á að mál séu tekin til athugunar hjá stjórnvöldum hefur líka í för með sér að niðurstaða af athugunum mála við embætti umboðsmanns dregst. Umboðsmaður bendir þó á að slíkur dráttur á svörum stjórnvalda við erindum hans teljist þó ekki almennur lengur, eins og var, sem var mjög slæmt, en hann er þó a.m.k. ekki almennur lengur heldur er hann bundinn við ákveðin stjórnvöld, eins og segir í skýrslu umboðsmanns, stundum tímabundið vegna breytinga á starfsmannaskipan.

Umboðsmaður bendir á í skýrslu sinni að dráttur á því að ráðuneyti sinntu tilmælum um að veita honum skýringar og upplýsingar vegna mála sem hann hafði til meðferðar urðu umboðsmanni tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort ráðuneyti fylgdu almennt einhverjum reglum um afgreiðslu erinda. Þetta var gert snemma á árinu 1989. Þá kom í ljós að yfirleitt var það ekki þannig, enda þótt flest teldu ráðuneytin sig afgreiða erindin svo fljótt sem verða mætti. Af því tilefni hvatti umboðsmaður til þess að í kjölfarið mótuðu ráðuneyti jafnt sem önnur stjórnvöld sér reglur um svör við erindum frá þeim sem til stjórnvalda leita og settu fram ákveðin viðmiðunarsjónarmið af því tilefni.

Það var örlítið komið inn á það áðan í framsögu og enn síðar í andsvari hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar hvort ekki mætti setja einhver frekari ákvæði í stjórnsýslulögin um að það væri skýrara hversu fljótt þyrfti að afgreiða erindi. Í skýrslu umboðsmanns er bent á að það geta verið ákveðin vandkvæði á slíkum ákvæðum í stjórnsýslulögunum sjálfum vegna þess að tilvikin eru eins misjöfn og þau eru mörg, og að slíkar reglur gætu hindrað það í raun og veru að gætt sé þess réttaröryggis sem við viljum líka gera kröfu til vegna þess að sum mál eru einfaldlega flóknari en önnur. Þess vegna getur kannski verið óþægilegt og óeðlilegt að hafa of stífar almennar reglur í þessum efnum.

Hins vegar er bent á það af umboðsmanni að ekki sé útilokað að afgreiðslutíma megi ákveða nákvæmar á nánar afmörkuðum sviðum svo sem reyndar dæmi eru um í lögum. Þarna finnst mér umboðsmaður vera að gefa svolítið í skyn að alveg megi skoða þetta í ákveðnum tilvikum og væntanlega hefur hann kannski meiri hugmynd um það en margur annar á hvaða sviðum það er sem þörf væri á að setja slíka reglu. Ég mundi vilja spyrja hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og frsm. allshn. hvort ekki væri skoðandi af hálfu allshn. að óska e.t.v. eftir hugmyndum eða ábendingum frá umboðsmanni um það hvar mætti setja slíkar reglur í lög eða hvar væri æskilegt að setja þær. Kannski hefur allshn. nú þegar fengið einhverjar slíkar ábendingar en ég vil gjarnan vita hvort svo væri eða hvort ekki væri ástæða til að skoða þessi mál frekar.