Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:38:21 (430)

1998-10-15 13:38:21# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), VS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hér áðan kom fram að allgott samkomulag hefði verið milli formanna þingflokka um að ræða öll málin saman. Ég vil því að fram komi að þegar forseti kallaði okkur til fundar við sig á sl. þriðjudagsmorgni hafði ég fullan fyrirvara á að málin yrðu öll rædd saman.

Mér heyrist að hv. þm. Svavar Gestsson sé nánast með hótanir um að ef svo verði ekki þá geti umræðan dregist á langinn. Það getur vel verið að svo verði en við óttumst ekkert þessa umræðu, enda er málið ekki flokkspólitískt það ég veit. Ég veit ekki betur en það eigi stuðning í öllum þingflokkum. Mér þykir miður ef hv. formenn þingflokka koma með dylgjur um að umræðan verði dregin á langinn ef ekki verði farið að þeirra óskum um að ræða málin öll í einu.

Við verðum að hafa í huga að hér er um mjög sérstakt mál að ræða sem mikið hefur verið í umræðunni á undanförnum mánuðum. Mál sem dreift er daginn áður en umræða á að hefjast hafa ekki sömu stöðu hér í þinginu. (GÁS: Dreift á sama tíma.) Það er ekki hægt að ætlast til þess að hv. þingmenn almennt hafi kynnt sér þau mál, sem ég er ekki að lítilsvirða, en hv. þingmenn hafa ekki haft tíma til þess að kynna sér þau mál.

Ég stend með hæstv. heilbrrh. varðandi það að ræða málið eitt og sér, enda hefur það verið lengi til umfjöllunar. Nú er að nálgast sá dagur sem við höfðum hugsað okkur, og var allgóð samstaða um í vor, að þetta tiltekna mál, sem nú á að hefja umræðu um, yrði gert að lögum. (SvG: Mikil samstaða?) Hvort það var full samstaða get ég ekki sagt um en menn höfðu hugsað sér að reyna að gera þetta mál að lögum um 20. okt. Auðvitað verður það ekki, enda er það ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að málið fái málefnalega umfjöllun bæði við 1. umr. og í hv. heilbrn.