Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 14:51:49 (445)

1998-10-15 14:51:49# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Gríðarlega margar spurningar vakna varðandi þetta frv. og að þeim verður væntanlega komið síðar í umræðunni en sú stóra spurning sem vaknar í huga mínum og ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra er það sem kemur fram í 7. gr. frv., að gert er ráð fyrir því að viðkomandi heilbrigðisstofnanir gefi samþykki sitt fyrir því að viðkomandi upplýsingar fari inn í gagnagrunninn.

Ég hef skilið það svo að bullandi ágreiningur sé um þetta mál og mikil gagnrýni vísindasamfélagsins hér í landinu og því spyr ég hæstv. heilbrrh.: Er eitthvert gagn að því og eru það skynsamleg vinnubrögð að hennar mati að koma með þetta frv. og ræða það með þeim þrýstingi sem því fylgir? Því það er greinilegt að það á að reyna að afgreiða þetta nokkuð skjótlega, fyrir áramót hefur hæstv. ráðherra sagt. Væri ekki nær að reyna fyrst að ná sátt við vísindasamfélagið í landinu og finna leið sem menn geta sætt sig við áður en byrjað er að þrýsta svona á?

Ég vil líka varpa fram spurningu sem mér finnst mikilvægt að fá svar við. Hæstv. ráðherra nefndi að kostnaðurinn við gagnagrunninn væri á bilinu 9--20 milljarðar og ég spyr: Er inni í þeim kostnaði það sem landlæknisembættið þarf að leggja fram? Ég þykist vita að svo sé en ég spyr: Hver verður kostnaður landlæknisembættisins? Ég var að telja það saman að ef ég ætlaði að neita því að upplýsingar um mig færu inn í þennan gagnagrunn þyrfti landlæknir að skrifa til a.m.k. 12 aðila og tilkynna að viðkomandi einstaklingur ætli ekki að láta upplýsingar af hendi og því sé ég það fyrir mér að við þetta verði mikill kostnaður.

Að lokum vil ég, hæstv. forseti, ítreka þá spurningu sem kom áðan fram um það hvað má selja út úr þessum gagnagrunni og þá hverjum. Hvað t.d. um erlenda aðila? Ein megingagnrýnin sem ég hef heyrt er ótti ýmissa aðila við að hægt verði að vinna upplýsingar út úr þessum gagnagrunni sem geti t.d. nýst bandarískum tryggingafélögum.