Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:20:58 (453)

1998-10-15 16:20:58# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er einkar efnislegt innlegg í málið frá varaformanni heilbr.- og trn. Hv. þm. hefur ekki aðeins kyngt þeirri staðhæfingu að hér séu ekki persónugreinanlegar upplýsingar á ferðinni. Hún er sannfærð um það og þá liggur það fyrir. Hún líkir málinu sem við ræðum við fyrirtæki sem framleiðir stoðtæki eða þróar tiltekna vöru samkvæmt sínum áætlunum og skýrum heimildum. Ég sé ekki að mikill viðræðugrundvöllur sé á milli okkar sem lítum jafnólíkt á þetta mál og hv. þm. og ég. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með staðhæfingar hv. þm., sérstaklega vegna stöðu þingmannsins sem varaformanns heilbr.- og trn. og aðaltrúnaðarmanns stjórnarliðsins í þeim efnum. Mér finnst sannarlega vera áhyggjuefni hversu gáleysislega er talað í þessu stóra máli.