Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:22:18 (454)

1998-10-15 16:22:18# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hér í andsvari einnig taka fyrir þá yfirlýsingu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að aðalmálið sem hann vildi leggja áherslu á væri að hér ætti að opna þetta svið á viðskiptalegum forsendum. Það draup af þingmanninum vandlætingin þegar hann nefndi viðskiptalegar forsendur.

Mig langar að spyrja hv. þm. hvort hann átti sig á því að nánast allar framfarir í lyfjaframleiðslu í heiminum undanfarna áratugi byggjast á upplýsingum um heilsufar sem eru fengnar með ýmsum hætti. Rannsóknarmenn í Bandaríkjunum sækja t.d. mjög til Evrópulandanna, ekki síst til skandinavísku landanna vegna þess að þar er betri heilsufarsgrunnur en í Bandaríkjunum. Til hvers gera þeir það? Til að geta byggt á þessu rannsóknir og framleitt og þróað lyf. Allt er þetta gert á viðskiptalegum forsendum. Það vill svo til að verulegur hluti af framförum í læknavísindum byggist á viðskiptalegum forsendum og þessar viðskiptalegu forsendur eiga rætur að rekja til upplýsinga sem eru fengnar úr heilbrigðiskerfinu.

Ef hv. þm. talar gegn þessu máli fyrst og fremst á þeim forsendum að þarna fari saman ákveðnir heilsufarshagsmunir opinberra aðila og svo viðskiptalegar forsendur þá finnst mér hann skulda okkur skýringar á því hvernig hann lítur almennt á þá þróun sem orðið hefur innan lyfjageirans.

Að því er varðar þá gagnrýni hans að ekki sé vitað hvað fara eigi inn í grunninn finnst mér að hann geti lesið um það í frv. hvernig ætlast er til að það verði unnið. Það eru ekki forsendur fyrir því að segja nú þegar í smáatriðum hvað fara eigi inn í grunninn. Það er að sjálfsögðu hluti af þeirri áætlun sem gert er ráð fyrir að sérleyfishafinn leggi fram og þá í samvinnu við sjúkrastofnanir, hvað á erindi inn í grunninn og hvað ekki.