Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:26:52 (456)

1998-10-15 16:26:52# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. kom sér undan því að svara spurningunni sem ég lagði fyrir hann, þ.e. um hlut viðskiptastofnana í framförum í lyfjaþróun. Hann bætir síðan gráu ofan á svart með því að segja að heilbrigðisupplýsingar verði afhentar einu fyrirtæki. Hvar stendur þetta í frv., með leyfi að spyrja? Þvert á móti er verið að afhenda sérleyfishafanum möguleika á að steypa þessum upplýsingum saman í grunn. Hverjir eiga að hafa aðgang að þessum grunni? Að sjálfsögðu eiga rannsóknaraðilar og fyrirtæki að hafa aðgang að grunninum þannig að það er ekki verið að afhenda fyrirtæki heilbrigðisupplýsingar. Það er verið að gera heilbrigðisupplýsingar aðgengilegar fyrir rannsóknaraðila. Þetta er því alger rangtúlkun á innihaldi frv. sem hv. þm. leyfir sér hér að fara með.