Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:23:12 (472)

1998-10-15 17:23:12# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er gædd hæfileika sem ég hef ekki. Hún getur séð inn í framtíðina. Hún heldur því fram að ef einkarétturinn verði ekki veittur þá muni enginn gagnagrunnur verða. Ég held því hins vegar fram að ef enginn einkaréttur yrði heldur frjáls samkeppni þá mundu fyrirtæki leita eftir því að setja upp fyrirtæki á þessu sviði. Þau mundu að öllum líkindum reyna að hafa einhvers konar samvinnu sín á milli um það hvers konar sjúkdómaflokkum þau mundu starfa að og hvers konar gagnagrunna þau mundu byggja upp. Að líkindum yrðu þeir smærri og ekki eins altækir og þessi er en ég hygg að þetta mundi gerast.

Það er hins vegar ekki hægt að segja að engir aðrir mundu koma vegna þess að við höfum ekki gefið öðrum færi á því að segja hug sinn. Hæstv. forsrh. hefur sagt öllum heiminum að aðrir skuli ekki að koma hingað vegna þess að Íslensk erfðagreining eigi að fá þetta. Þar með hefur hann bægt öllum í burtu. Ég tel að þetta sé slæmt. Ég tel að þetta komi í veg fyrir að hér komist á samkeppni á þessu sviði, svipuð samkeppni og við höfum nú séð þróast í Bandaríkjunum og hefur leitt af sér fjölda nýrra uppgötvana. Þær hafa t.d. stytt allverulega þann tíma sem tekur að greina erfðir mannsins. Sú samkeppni hefur skapað fjölda nýrra starfa og dregið að sér gríðarlegt fjármagn. Ég held að það sama mundi gerast hérna ef það er rétt að Ísland sé það erfðafræðilega kjörlendi sem Kári Stefánsson t.d. heldur fram.